Slökkviliðsmenn á Þingvöllum undirbúa nú að brjóta niður þekjuna á síðasta hluta Hótel Valhallar sem enn stendur til að slökkva í glæðum þar undir. Ekkert mun því standa eftir af húsinu í kvöld.
Snorri Baldursson, aðstoðarslökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu, segir líklegt að slökkviliðsmenn verði að vinna fram undir miðnætti. Slökkviliðið var kallað út vegna brunans á fimmta tímanum í dag, en nú eru alls sjö slökkviliðsbílar á svæðinu.
„Það vantaði ekki græjurnar, húsið brann bara of hratt,“ segir Snorri. Hótel Valhöll er meira eða minna timburhús, þó nýjasti hlutinn, þar sem enn logar, sé steyptur.„Það virðist nokkuð ljóst að það kviknaði í eldhúsinu út frá grilli og eldurinn hefur teygt sig upp í háfinn, þaðan í stokkinn og í þekjuna. Þaðan hefur hann breiðst út,“ segir Snorri. Nokkuð algengt er að eldsupptök verði með þessum hætti. „Þeir eru mjög hættulegir þessir háfar, það safnast fita innan í þá sem eldurinn breiðist auðveldlega út frá.“
Að sögn Snorra tókst að bjarga gaskútum sem voru inni í húsinu og einnig tókst að verja olíutank sem stóð bak við húsið. Því hefði ekki myndast verulegt hættuástand, en mikið puð hefði verið að slökkva eldinn.