Sýndu Samson mikið traust

Magnús Þorsteinsson, Björgólfur Thor Björgólfsson og Björgólfur Guðmundsson voru eigendur …
Magnús Þorsteinsson, Björgólfur Thor Björgólfsson og Björgólfur Guðmundsson voru eigendur Samsonar eignarhaldsfélags þegar Landsbankinn var keyptur. mbl.is/Kristinn

Forsvarsmenn lífeyrissjóða og peningamarkaðssjóða bankanna sýndu Samson, félagi Björgólfsfeðga, mikið traust í fjárfestingum og þurfa nú að súpa seyðið af gjaldþroti félagsins eftir hrun bankakerfisins í október sl.

Lífeyrissjóðir, stórir sem smáir, keyptu skuldabréf félagsins fyrir um 10 milljarða króna. Þar á meðal eru stærstu lífeyrissjóðir landsins, Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) og Gildi lífeyrissjóður.

Eins og greint var frá í Morgunblaðinu í gær hefur verið sent bréf til skiptastjóra Samsonar, Helga Birgissonar hrl., frá LSR þar sem greint er frá því að persónuleg ábyrgð eigenda Samsonar, einkum Björgólfs Guðmundssonar, hvíli á skuldum félagsins. Samson skuldar LSR tvo milljarða og eru hverfandi líkur á að skuldirnar endurheimtist að einhverju leyti.

Það sama má segja um skuldabréf sem aðrir lífeyrissjóðir keyptu, þar á meðal Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Gildi lífeyrissjóður, Stafir lífeyrissjóður, Sameinaði lífeyrissjóðurinn, Stapi lífeyrissjóður, Almenni lífeyrissjóðurinn, Lífeyrissjóður verkfræðinga, Lífeyrissjóður Vestfirðinga og Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga.

Guðrún K. Guðmannsdóttir, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs Vestfirðinga, segir það vera mikið áfall að tapa miklum fjármunum en það sé í raun hluti af „einu allsherjaráfalli“ sem Ísland sé nú búið að vakna upp við. „Það er gífurlegt áfall að fjárfestar hafi meðhöndlað félög og fyrirtæki með óábyrgum hætti, annaðhvort með því að taka út úr þeim verðmæti eða hreinlega fjárfesta með arfavitlausum hætti. Það er einnig mikið áfall að allt eftirlitskerfið hafi brugðist sömuleiðis [...] Ég bjóst ekki við því að félag einhverra ríkustu manna heims myndi fara í þrot,“ segir Guðrún og vísar til eignar sjóðsins í Samson. Samtals keypti Lífeyrissjóður Vestfirðinga skuldabréf í Samson fyrir tæplega 300 milljónir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert