Valhöll brennur til grunna

mbl.is/Ómar

Hótel Valhöll á Þingvöllum er nú í björtu báli og leggur mikinn reyk upp af húsinu. Að sögn ljósmyndara Morgunblaðsins sem er á Þingvöllum er ljóst að húsið mun brenna til grunna, eldurinn er langt á veg kominn og ekki mikið sem eftir stendur.

„Það sakaði engan, allir komust út í tíma. Það virðist sem eldsupptökin hafi verið í eldhúsinu,“ sagði Snorri Baldursson, varaslökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu í samtali við mbl.is

Snorri sagðist ekki vita til þess að tekist hefði að bjarga þeim verðmætum sem í húsinu voru en töluvert af listaverkum var þar inni.

Á staðnum eru fimm slökkvibílar og einn sjúkrabíll. Yfir hundrað manns fylgjast með eldsvoðanum af brúnni skammt frá hótelinu og um 30 manns hinum megin við ána.

„Það skíðlogar og leggur reyk upp af Valhöll sem sést víða að. Flugvélar sveima hér yfir en lögregla stöðvar alla umferð við afleggjarann inn í þjóðgarðinn. Engu að síður er hér töluvert af fólki að fylgjast með. Það standa eldtungur upp úr nýrri hluta hússins og aðalinngangurinn er rústir einar. Þetta lítur mjög illa út og ekki að sjá að við Þetta verði ráðið,“ sagði Dagur Gunnarsson, blaðamaður mbl.is á Þingvöllum.

Slökkvilið brá á það ráð að leggja slöngur út í Þingvallavatn. Nokkuð vindasamt er á Þingvöllum sem hjálpar ekki til við slökkvistarfið.

mbl.is/Júlíus
mbl.is/Guðmundur Karl
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert