Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt VÍS til að greiða bíleiganda rúmar 3,4 milljónir króna í bætur vegna tjóns sem hlaust þegar bíl mannsins var stolið.
Tryggingafélagið hélt því fram að geymsla bíllyklanna hefði verið ófullnægjandi og neitaði að bæta tjónið. VÍS byggði á vitnisburði bílþjófsins sem sagði lyklana hafa verið í kveikjulás bílsins. Bílþjófurinn var ofurölvi og að auki undir áhrifum fíkniefna. Hann var ekki kallaður fyrir dóminn við meðferð málsins.
Bíleigandinn sagði bílinn hafa verið læstan og bíllyklana á borði inni á heimili sínu. Útidyr hefðu hins vegar verið ólæstar.
VÍS hélt því fram að með því að hafa hús sitt ólæst, hefði bíleigandinn boðið heim hættunni á aðóreglumenn og þjófar fari inn í húsið, taki lyklana og steli bifreiðinni.
Dómari vísaði til þess að heimili njóta friðhelgi víðs vegar í löggjöf, m.a. í 70. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Hann tiltók að refsing liggur við því að inn á heimili fólks í óleyfi.
„Enda þótt fallast megi á, að undir vissum kringumstæðum megi meta það manni til gáleysis að hafa útidyr heimilis síns ólæstar, svo þangað geti gengið inn fólk í misjöfnum tilgangi, verður ekki talið, eins og hér stendur á, að meta eigi það manni til gáleysis í skilningi gr. 6.3 í skilmálum húftryggingarinnar, sem um ræðir í máli þessu, að hafa ólæstar útidyr á heimili sínu, þegar þar dvelja heimilismenn eða annað fullburða fólk, sem ekki er þar óvelkomið. Verður heimili stefnda undir þessum kringumstæðum talið vera öruggur staður í þessum skilningi,“ segir í dómsorði.
Erlingur Sigtryggsson, héraðsdómari kvað upp þann dóm að VÍS bæri að greiða tjónið í samræmi við skilmála kaskótryggingar.