Mikil umferð er nú á flestum þjóðvegum landsins en góð veðurspá fyrir helgina virðist hafa lokkað borgarbúa út á land, líkt og undanfarnar helgar. Ekki hefur verið mikið um umferðaróhöpp það sem af er og almennt lætur lögregla vel af ferðamönnum.
Að sögn lögreglunnar í Borgarnesi er mikil umferð „í allar áttir" í Borgarfirðinum. Af þeim sökum gengur hún örlítið hægar fyrir sig en venjulega án þess þó að teppur hafi myndast, en lögregla giskaði á að meðalhraðinn væri um 80 km/klst. Umferðin hefur gengið stóráfallalaust fyrir sig; aðeins var tilkynnt um tvö minniháttar óhöpp í gær og engin slys urðu á fólki. Öll tjaldstæði í Borgarfirðinum eru full að sögn lögreglu og á stærri stöðunum, eins og í Húsafelli, er löngu uppselt. „Fólk þarf að vera komið á miðvikudegi, fimmtudegi til að vera öruggt um pláss þar," sagði lögregla.
Svipaða sögu hefur lögreglan á Selfossi að segja. Umferð hefur verið þung en aðeins verið tilkynnt um þrjú minniháttar umferðaróhöpp. Í tveimur tilfellum var um að ræða að ökumaður bakkaði á kyrrstæða bifreið. Mikið er af fólki á öllum tjaldstæðum og bar svolítið á ölvun á þeim í nótt að sögn lögreglu og var nokkur erill hjá henni af þeim sökum. Engin stórmál komu þó upp. „Eins og venjulega er meginþorri þeirra sem eru gestir hér í sýslunni til fyrirmyndar."
Á Akureyri er sömuleiðis „fullur bær af fólki" að sögn lögreglu. Mikil umferð hefur verið en hún hefur gengið afskaplega vel fyrir sig og hafa engin óhöpp orðið með slysum, þrátt fyrir örfáa minniháttar árekstra. Segir lögregla nóttina hafa verið einstaklega rólega, miðað við allan þann fjölda sem var í bænum og þurfti lítil sem engin afskipti lögreglu. „Þannig að fólk skemmtir sér fallega," segir hún.
Margir hafa einnig verið á ferli á Egilsstöðum og nærsveitum undanfarnar tvær vikur, en ekki er að merkja fleiri nú um helgina en aðra daga, að sögn lögreglu. Engu að síður er fullt á öllum tjaldstæðum en lítið er um ölvun. Ekki hefur verið mikið um umferðaróhöpp og engin alvarleg slys orðið.