Þetta er auðvitað afskaplega leiðinlegt því erum búin að vera að byggja þetta upp í nokkur ár með góðum árangri. Við erum komin með nemendur af öllum landshornum þó að stærsti hópurinn sé af Reykjavíkursvæðinu,“ segir Steinunn H. Hafstað, fjarnámsstjóri við Fjölbrautaskólann við Ármúla (FÁ).
„Að meðaltali eru grunnskólanemendur að taka þrjár einingar sem getur þá verið einn áfangi. Í bóklegum fögum taka flestir nemendur einn þriggja eininga áfanga á önn, en sumir taka tvo og þeir hörðustu jafnvel fleiri. Sumir byrja á þessu í níunda bekk og eru þá búnir að flýta fyrir sér um að minnsta kosti heila önn þegar þeir byrja í framhaldsskóla sem er auðvitað sparnaður líka fyrir menntakerfið.“
Steinunn telur bæði nauðsynlegt og jákvætt að grunnskólabörn geti verið áfram í sínu umhverfi.
Flestir foreldrar gætu væntanlega verið sammála því. Þessar breytingar hafa hins vegar þau áhrif að þeir nemendur sem eru á undan í námi og sáu þarna leið til að ekki aðeins flýta sér í námi, heldur jafnvel takast á við nám sem reyndi á, þurfa að sækja þá örvun aftur í grunnskólann. Það er því áskorun fyrir kennara og þá sem vinna að námskránni að sjá til þess að þessir krakkar fái tækifæri til að takast á við krefjandi verkefni, sem þau þurfa ekki að leysa hugsunarlaust með annarri hendi.
Þá var valfögum á grunnskólastigi fjölgað það mikið að nemendur í 8., 9. og 10. bekk áttu kost á vali um þriðjung námstímans.
Með þessu átti að koma til móts við þarfir nemenda um fjölbreytni og taka tillit til þess að þau væru ólíkir einstaklingar, með meiri sérfræðiþjónustu.
En síðast en ekki síst átti að auðvelda nemendum að stunda nám við framhaldsskóla og gefa þeim þar með tækifæri til að hafa áhrif á eigin framtíð með því að læra á sínum hraða.