Hótelrekstur á ekki að vera í þinghelginni

„Ég er þeirr­ar skoðunar, að standi vilji til al­menns hót­el­rekst­urs í þjóðgarðinum, eigi hann al­farið að vera í hönd­um einkaaðila og ætlaður staður í Skóg­ar­hól­um, við ræt­ur Ármanns­fells, en ekki í þing­helg­inni sjálfri, þar sem Val­höll stóð,“ seg­ir Björn Bjarna­son, fyrr­var­andi dóms­málaráðherra á vefsíðu sinni í kvöld.

Björn rit­ar í til­efni bruna Hót­els Val­hall­ar á Þing­völl­um og rifjar upp pist­il sem hann ritaði á síðu sína 28. ág­úst 2002. Þar seg­ir að langþráð mark­mið hafi náðst vorið 2002 þegar ríkið eignaðist landið og húsa­kost­inn á Val­hall­ar­lóðinni, sem fram til þess tíma hafði verið í einka­eign inn­an þjóðgarðsins. Enn­frem­ur seg­ir að for­sæt­is­ráðuneytið hafi for­ystu um ákv­arðanir varðandi nýt­ingu húsa­kosts­ins í sam­ráði og sam­vinnu við Þing­valla­nefnd. Þá hafi aðstaða fyr­ir starfs­menn þjóðgarðsins verið bætt með nýju starfs­manna­húsi við þjón­ustumiðstöðina á Þing­völl­um, en áður voru starfs­menn­irn­ir í sum­ar­dvöl að Gjá­bakka, en bæj­ar­húsið þar brann vet­ur­inn 2001/​2002.

„Eins og þarna kem­ur fram brann hús að Gjá­bakka vet­ur­inn 2001/​2002. 10. júlí 1970 brann Kon­ungs­húsið í af­taka­veðri með sorg­legu mann­tjóni eins og sag­an geym­ir og stend­ur mér nærri.  Nú brenn­ur Val­höll,“ skrif­ar Björn Bjarna­son í kvöld.

Hann seg­ir Þing­valla­nefnd hafa mótað framtíðar­stefnu fyr­ir þjóðgarðinn árið 2004, þegar hann var skráður á heims­minja­skrá UNESCO. Í henni er gert ráð fyr­ir aðstöðu til manna­móta á þeim stað, þar sem Val­höll hef­ur staðið, og tak­mörkuðu gist­i­rými.

Björn seg­ist þeirr­ar skoðunar að hót­el­rekst­ur í þjóðgarðinum eigi al­farið að vera í hönd­um einkaaðila og ætlaður staður í Skóg­ar­hól­um, við ræt­ur Ármanns­fells, en ekki í þing­helg­inni sjálfri, þar sem Val­höll stóð.

Björn seg­ir að Geir H. Haar­de hafi ekk­ert látið að sér kveða varðandi Val­höll sem for­sæt­is­ráðherra. Frá því að for­sæt­is­ráðuneytið hafi tekið húsið að sér og út­leigu á rekstri þess hafi verið ráðist í nokkr­ar end­ur­bæt­ur á því.

„Ef ég man rétt hafa fimm rekstr­araðilar komið að hót­el Val­höll síðan 2002. Bend­ir það til þess, að um­svif hefðu mátt vera meiri. Mig hef­ur undrað, að ekki skuli hafa verið kjör­in ný Þing­valla­nefnd eft­ir kosn­ing­arn­ar 25. apríl, en í nefnd­inni eiga að sitja þing­menn. Mér skilst, að ákveðið hafi verið að kjósa nýja nefnd nk. mánu­dag. Þing­valla­nefnd hef­ur hins veg­ar í raun ekki haft neitt  um Val­hall­ar­reit­inn að segja, því að starf­semi á hon­um hef­ur fallið beint und­ir for­sæt­is­ráðuneyti sam­kvæmt því, sem ákveðið var á ár­inu 2002,“ seg­ir Björn Bjarna­son á vefsíðu sinni.

Vefsíða Björns Bjarna­son­ar

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert