„Þetta er alveg hrikaleg sjón að sjá og síðan er þetta tilfinningatengt allt saman því Valhöll er auðvitað svo stór partur af þessum sögufræga stað. Það er mikill sjónarsviptir af þessu húsi hér,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra þar sem hún stóð við rústir Hótels Valhallar á Þingvöllum í dag.
Fjöldi fólks hefur farið að Þingvöllum í dag og blasir hrikaleg sjón við þeim sem leggja leið sína að brunarústunum við Hótel Valhöll. Fátt stendur uppi af þessu húsi sem geymir hluta sögunnar.
Hótel Valhöll var rifin að hluta í nótt en húsið gjöreyðilagðist í eldi í gær. Það verður rifið á næstu dögum. Búið er að taka skýrslur af nokkrum starfsmönnum en rannsókn á eldsupptökum er í höndum lögreglunnar á Selfossi.
„Það er mjög erfitt að horfa upp á þetta og var mjög erfitt að fylgjast með eldsvoðanum í gær. Það er gríðarlegt eignatjón en það á eftir að meta hvert það er en maður getur þó huggað sig við að það að ekki urðu slys á fólki,“ sagði forsætisráðherra við brunarústirnar á Þingvöllum.
Seint í gærkvöld logaði enn í glæðum og stóð slökkvistarf fram á miðja nótt. Þegar í nótt var hafist handa við að rífa húsið og var notast við krabba, þann sama og notaður var við niðurrifið í Lækjargötubrunanaum.
„Svo þarf auðvitað að fara yfir það, Þingvallanefnd og fleiri þurfa að meta það hvað hér verður gert. Ég hef ekki myndað mér skoðun á því hvað eigi að gera. Maður er að reyna að jafna sig á þessu því þetta er auðvitað áfall. Ég held að menn þurfi bara að taka sér góðan tíma í að skoða hvað gert verður. Það eru nú ekki miklir peningar til staðar til að fara í uppbyggingu hér strax. Fyrst og fremst þarf að hreinsa hér burt rústir og kannski þarf að grafa burt eitthvað af jarðvegi, m.a. vegna lífríkis. Síðan þarf að þekja svæðið og ganga vel frá því. Í framhaldinu verður metið hvort og hvar endurbyggingin verður. Mér finnst ekki sjálfgefið að hér verði endilega hótelrekstur aftur. En spurningin er hvort hótelrekstur verður byggður upp á öðrum stað í þjóðgarðinum,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir á Þingvöllum.
Hún segir að Þingvallanefnd muni skoða framtíðaruppbyggingu en ný Þingvallanefnd verði skipuð í næstu viku.