Fyrrverandi starfsmenn Spron fá að líkindum laun sín greidd á næstu dögum en viðskiptanefnd Alþingis lagði dag fram á Alþingi lagafrumvarp sem heimilar ótvírætt að laun verði greidd úr þrotabúi Spron.
Tildrög frumvarpsins eru þau að slitastjórn SPRON tilkynnti starfsmönnum 30. júní sl. að þeir fengju ekki greidd laun í uppsagnarfresti þar sem slitastjórnin taldi sig ekki hafa lagaheimild til þess að greiða þau.
Viðskiptanefnd hefur leitað álits viðskiptaráðuneytis og réttarfarsnefndar og var það samdóma mat þessara aðila að heimildir skorti ekki svo framarlega sem fullnægt væri þeim skilyrðum að slitastjórn viðurkenni kröfurnar fyrir sitt leyti og telji víst að félagið eigi nægar eignir til að standa sömu hlutfallsleg skil á öllum forgangskröfum sem gætu notið sömu eða hærri stöðu í skuldaröð.
Slitastjórnin hefur ekki fallist á þessa niðurstöðu stjórnvalda og starfsmenn því launalausir og í óvissu.
Í ljósi þess óhagræðis og tjóns sem þessi staða hefur þegar valdið ríflega 100 fyrrverandi starfsmönnum SPRON og til þess að komast hjá frekara tjóni sem málshöfðun hefur í för með sér með tilheyrandi drætti á greiðslu þessara launakrafna fyrrverandi starfsmanna telur viðskiptanefnd ekki annað fært en að treysta þær heimildir sem slitastjórnin hefur samkvæmt framangreindu áliti, í þeirri von að hún muni nú nýta þær, og flytur því frumvarp þetta.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að heimildin verði tímabundin og gildi fram til 31. desember 2009 þar sem ætla má að unnt verði að ljúka því að gera upp launa- og forgangskröfur viðkomandi fjármálafyrirtækja fyrir þann tíma.