Ung vinstri græn styðja Ásmund Einar Daðason, þingmann VG, í yfirlýsingu sem þau hafa sent frá sér. Þar segir að breytingartillaga við tillögu ríkisstjórnarinnar um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu, sem felur í sér þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja skuli um aðild, ekki brjóta gegn stjórnarsáttmála VG og Samfylkingar.
Allt tal um stjórnarslit sé undarlegt í ljósi þess að ekki sé um alvarlegra mál að ræða en tillögu um málsmeðferð, „sem er léttvægt atriði miðað við þau stóru verkefni sem við blasa í endurreisn Íslands."
Yfirlýsing Ungra vinstri grænna er svohljóðandi:
„Ung vinstri græn studdu eindregið að Vinstrihreyfingin - grænt framboð og Samfylkingin tækju höndum saman og reyndu að reisa Ísland við úr rústum þeirrar hægristefnu sem leiddi efnahagshrun yfir landið síðasta haust. Ung vinstri græn eru þeirrar skoðunar að það sé velferðarstjórn að norrænni fyrirmynd sem best og á réttlátastan hátt geti leitt þjóðina til jöfnuðar og framfara. Því styðja Ung vinstri græn áframhaldandi stjórnarsamstarf þessara flokka.
Ung vinstri græn telja þá breytingartillögu við tillögu ríkisstjórnarinnar um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu, sem felur í sér þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja skuli um aðild, ekki brjóta gegn stjórnarsáttmála VG og Samfylkingar. Verði slík breytingartillaga samþykkt og umsóknin sjálf einnig, munu stjórnvöld hafa fullt umboð til aðildarumsóknarinnar en fyrr ekki. Allt tal um stjórnarslit er undarlegt í ljósi þess að ekki er um alvarlegra mál að ræða en tillögu um málsmeðferð, sem er léttvægt atriði miðað við þau stóru verkefni sem við blasa í endurreisn Íslands.
Ung vinstri græn gera sér grein fyrir því að í samstarfi þurfi að sættast á málamiðlanir. Þó má ekki gleyma að í kjöri til Alþingis felst mikilvægursáttmáli milli þingmanns og kjósenda hans um að hann fylgi sannfæringu sinni og þeirri stefnu sem hann boðaði fyrir kosningar. Því hafa Ung vinstri græn skilning á þeirri erfiðu stöðu sem margir þingmenn Vinstri grænna eru í varðandi aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu og styðja Ásmund Einar Daðason og aðra þingmenn í að fylgja eigin sannfæringu í öllum málum sem fjallað er um á þingi. Ung vinstri græn vænta þess af kjörnum fulltrúum sínum að þau beri virðingu skoðunum hvers annars og vinni sameinuð að því að koma Íslandi út úr kreppunni."