Tveimur jeppum var ekið út af veginum í Mývatnsöræfum í kvöld. Tilkynnt var um bílveltu klukkan 17.00 og að tveir væru slasaðir í bílnum. Lögregla fór á staðinn ásamt sjúkrabílum frá Húsavík en í þann mund sem hún kom á vettvang var tilkynnt um aðra bílveltu 13 km austar. Þar var kona slösuð.
Konan var flutt til Húsavíkur og reyndist lítið slösuð. Parið í fyrra slysinu var hins vegar meira slasað og var það flutt til Akureyrar til aðhlynningar.
Annars vegar var jeppabifreið ekið út af veginum við afleggjarann að Herðubreiðarlindum og hins vegar nær Mývatni.
Eins og sjá má er verið að ganga frá eftir að sjúkraliðar fluttu manneskju í sjúkrabílinn á annarri myndinni en á hinni er verið að bíða eftir sjúkraliði sem kom skömmu síðar á staðinn.
Lögreglan segir málið mjög sérstakt. Í báðum tilvikum sé um að ræða grábrúna Toyota Land Cruiser jeppa, skemmdirnar séu svipaðar og aðdragandinn mjög svipaður. Báðir jeppar hafi oltið eftir að hafa verið ekið út af veginum. Þeir hafi síðan oltið á miðjum veginum og staðnæmst á hjólunum.
Lögreglan segir konuna sem lenti í seinni veltunni hafa hlúð að parinu sem hún kom að slösuðu skömmu áður en jeppi hennar valt.