Í vikunni var greint frá því að tæplega fjórðungur íslenskra kvenna í nánu sambandi hafi orðið fyrir einhvers konar ofbeldi af hálfu maka síns. Þar er um vandamál að ræða sem ekki má gera lítið úr, og í siðuðum samfélögum ætti raunar ekki að líðast. En þegar kemur að umræðu um heimilisofbeldi gleymist, að karlmenn eru ekki ávallt í hlutverki árásarmanns.
„Ofbeldi gegn körlum er vafalaust falið vandamál og hefur verið, og er enn, gert hlægilegt eða um það fjallað eins og það sé ekki til í alvörunni,“ segir Ingólfur V. Gíslason, lektor í félagsfræði við Háskóla Íslands. Hann segir það hins vegar mun minna hafa verið rannsakað og því séu því sem næst engin úrræði þeim til handa. „Á heildina litið er staðan enn sú að körlunum er sagt – beint og óbeint – að þetta sé vandamál sem þeir verði sjálfir að takast á við.“
Samkvæmt þeim rannsóknum sem komið hafa fram er mun algengara að karlmenn séu beittir andlegu ofbeldi en líkamlegu. Hvort það sé í jafn miklum mæli og konur er hins vegar vandi um að spá. Kynin skilgreina nefnilega ofbeldi ekki á sama hátt. Það sást einna best á niðurstöðum könnunar dómsmálaráðuneytis frá árinu 1996. Þar sögðust mun fleiri konur hafa beitt karla sínu ofbeldi en karlar sögðust hafa orðið fyrir. „Þær athuganir sem ég man eftir á andlegu ofbeldi benda til að ekki sé mikill munur á því sem kynin verða fyrir en hins vegar munur á því hvernig þau túlka það. Almennt séð gildir auðvitað að það er upplifun þolanda sem ræður því hvort um ofbeldi er að ræða. Hins vegar er alveg hugsanlegt að karlar frekar en konur reyni að dylja það að orð eða tákn særi þá. Það er jú ekki „karlmannlegt“ að taka slíkt inn á sig,“ segir Ingólfur.
Í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar vegna heimilisofbeldis er gert ráð fyrir verkefni sem sérstaklega beinist að því að skoða það ofbeldi sem karlar verða fyrir af hendi maka. Það verkefni er hins vegar ekki komið í gang.