Hollendingar sem komu til landsins eftir að bankakerfið hrundi í október voru afar vel undirbúnar og komu íslenskum embættismönnum í opna skjöldu, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.
Íslendingar undirrituðu viljayfirlýsingu ásamt Hollendingum um lán á 6,7% vöxtum eftir að samninganefnd þeirra hafði skírskotað til útreikninga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins,sem kvæðu á um að Íslendingar gætu borið slíka vexti. Þegar útreikningarnir voru bornir undir starfsmenn AGS voru þeir afar ósáttir við að sjóðnum hefði verið beitt með þessum hætti og komu þeir andmælum sínum á framfæri við Breta og Hollendinga.
AGS hafði notað þessa vexti í útreikningum, en það hafði ekki verið hugsað sem innlegg eða útgangspunktur í samningaviðræðum, og samkvæmt heimildum tjáðu starfsmenn sjóðsins fulltrúum íslenskra stjórnvalda í einkasamtölum að þeir teldu vextina fráleita, enda væru þeir langt fyrir ofan markaðsvexti. Ekki mætti blanda skuldatryggingarálagi inn í jöfnuna, þegar lánveitingin snerist fyrst og fremst um að bjarga landinu úr erfiðleikum.
Daginn eftir að viljayfirlýsingin var undirrituð með Hollendingum, var sest að samningaborðinu með Bretum. En þá þegar höfðu íslensk stjórnvöld gert sér ljóst að þau hefðu samið af sér gegn Hollendingum og leikurinn var ekki endurtekinn með Bretum.
Íslensk stjórnvöld tilkynntu svo hollenskum stjórnvöldum að ekki yrði gerður samningur sem byggðist á viljayfirlýsingunni.
Sjá nánar í ítarlegri umfjöllun í Morgunblaðinu í dag