Hæstiréttur staðfesti í dag vikugamlan úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um farbann konu sem er ákærð er fyrir stórfellt fíkniefnabrot og að hafa haft milligöngu um vændi. Konunni er því bönnuð för frá Íslandi til og með miðvikudeginum 5.ágúst. nk.
Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu segir að hann hafi haft til rannsóknar milligöngu vændis konunnar, þ.e. að hún hafi flutt til Íslands stúlkur sem hún hafi síðan haft milligöngu um að stundi vændi og taki hluta þóknunar sem greidd er fyrir. Við rannsókn málsins hafi stúlkur borið um að þær starfi við vændi á vegum hinnar ákærðu og að hún fái hluta þóknunar.
Frá því í febrúar hefur lögregla einnig haft til rannsóknar ætluð stórfelld fíkniefnabrot konunnar. Á grundvelli rannsóknar lögreglu hafi aðilar, sem taldir séu hafa komið hingað til lands á vegum hennar, verið handteknir við komu til landsins með fíkniefni innvortis, samtals um 400-500 g af kókaíni og fengið dóma fyrir að flytja efnin til landsins. Efnin hafi verið flutt til landsins 2. og 12. apríl sl. Samkvæmt greinargerð lögreglustjóra hefur lögregla upplýsingar um tengsl ákærðu við þessa aðila og ferðir þeirra hingað til lands. Flutningur efnanna til landsins er talinn tengjast umfangsmeiri fíkniefnabrotum sem til rannsóknar eru.
Konan hefur sætt gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar málsins frá 30. apríl sl. til 12. maí sl. og farbanni frá þeim tíma. Rannsókn lögreglu sé á lokastigi, en beðið er gagna m.a. frá erlendum lögregluyfirvöldum sem nauðsynlegt er talið að bera undir hina kærðu í málinu áður en rannsókn málsins lýkur.
Lögregla telur því rökstuddan grun að um stórfellt fíkniefnabrot og milligöngu vændis sé að ræða. Hin ákærða er íslenskur ríkisborgari en hefur takmörkuð tengsl við landið. Fjölskylda hennar býr erlendis og kærasti hennar er nú í gæsluvarðhaldi í Amsterdam. Nauðsynlegt sé að því að tryggja nærveru konunnar hér á landi til að hún geti ekki komið sér undan frekari rannsókn málsins, mögulegri saksókn og málsmeðferð fyrir dómi.