Mikil gagnrýni hefur komið fram á framkvæmd og úrslit maraþonhlaups kvenna sem var sýningargrein á Landsmóti ungmennafélags Íslands á Akureyri um helgina. Sigurvegari hlaupsins örmagnaðist skömmu áður en hún kom í mark og fékk hún aðstoð við að komast yfir marklínuna.
Samkvæmt upplýsingum Óskars Þórs Halldórssonar, verkefnastjóra mótsins, er málið í athugun en dómari var ekki við marklínuna.
„Eftir á að hyggja má segja sem svo að til að þetta væri algerlega á tæru vantaði dómara við endamarkið til þess að skera úr um svona vafaatriði," sagði Óskar er blaðamaður Morgunblaðsins ræddi við hann í dag. „Þetta er í fyrsta skipti sem við höldum maraþon á Akureyri og við leiddum aldrei hugann að því að svona tilvik gæti komið upp. Eftir á að hyggja getum við sagt að það hafi verið rangt og muni ekki koma fyrir aftur. "
Óskar sagðist jafnframt telja víst að í alþjóðlegum maraþonum væri slíkt ekki viðurkennt. Þá sagðist hann telja að umrædd hlaupakona hafi misreiknað sig vegna veðurs. „Það var gríðarlega gott veður. Íslendingar eru ekki vanir því að hlaupa heilt maraþon í slíkum aðstæðum og kannski misreiknaði hún sig," sagði hann.
Akureyrarhlaupið var fyrsta maraþonhlaupið sem hlaupið hefur verið í Eyjafirði, og ekki formlegur þáttur af landsmótinu. Það féll þó inn í dagskrá þess sem sýningargrein.
Fjallað er um málið á ýmsum bloggsíðum