Lítil bjartsýni í verslun

62% svarenda í könnun Rannsóknaseturs verslunarinnar töldu að sala á …
62% svarenda í könnun Rannsóknaseturs verslunarinnar töldu að sala á árstíðabundndnum sumarvörum yrði minni nú en í fyrra. mbl.is/Árni Sæberg

Horfur eru á að verslun gæti dregist saman enn frekar á næstunni og lítilsháttar fækkun verði í fjölda starfsmanna. Þetta á sérstaklega við um litlar verslanir. Í niðurstöðum könnunar sem Rannsóknasetur verslunarinnar gerði nýlega meðal stjórnenda í verslun kom þetta fram auk þess sem 62% svarenda töldu að sala á árstíðabundnum sumarvörum yrði minni nú en í fyrra.

Sambærileg könnun var gerð fyrir ári síðan. Þá mat um helmingur stjórnenda í verslun horfur stöðugar það sem eftir lifði ársins og fjórðungur átti von á samdrætti. Nú telja 61% stjórnenda að búast megi við minni veltu á síðari helmingi ársins. Þeir sem núna telja að veltan muni minnka seinni helming ársins miðað við sama tíma síðasta árs telja að samdrátturinn verði að meðaltali um 27,5% að raunvirði og þeir sem gera ráð fyrir aukinni veltu telja að hún verði að meðaltali um 10% meiri en í fyrra.

Allflestir sem tóku þátt í könnuninni töldu að starfsmannafjöldi yrði óbreyttur á seinni hluta þessa árs. Útlitið er þó heldur dekkra í augum stjórnenda og eigenda lítilla verslana því um þriðjungur þeirra telja að fækka þurfi starfsmönnum um að jafnaði um 32,5%. Tveir af hverjum þremur stjórnenda lítilla verslana telja hins vegar að starfsmannafjöldi verði óbreyttur út árið. Stjórnendur stórra verslana eða verslanakeðja töldu í 71% tilvika að starfsmannafjöldi yrði óbreyttur út árið, 22% að starfsmönnum fækki og 7% að fjölgun yrði.

Þeir sem töldu að fækka þyrfti starfsmönnum í stærri verslunum áætla að sú fækkun verði að meðaltali um 10% en þeir sem sögðustu áætla fjölgun töldu hana verða um 7,5% að meðaltali.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert