Mistök og óviðunandi hraði í málsmeðferð í viðskiptanefnd, urðu til þess að óvissa kom upp um heimild slitastjórnar Spron til að greiða starfsmönnum laun í uppsagnarfresti. Þetta fullyrtu þingmenn Sjálfstæðisflokksins í umræðum á Alþingi í dag.
Álfheiður Ingadóttir, formaður viðskiptanefndar gerði athugasemdir við þessar fullyrðingar og sagði hraða við breytingu laga um fjármálafyrirtæki í lok maí ekki valda því að nú þyrfti enn að gera á þeim breytingar.
„Ástæðan fyrir því að nú er kannski verið að fara í fjórða sinn inn í þessi lög frá setningu neyðarlaganna, er fyrst og fremst hraðinn sem var við setningu neyðarlaganna. Það þurfti að fara inn í þau í nóvember til þess að skýra tiltekin atriði. Það þurfti að gera það aftur í apríl og aftur í maí. Það gekk eftir sem sett var í lög hér 29. maí. Laun voru greidd út í þeim fyrirtækjum sem óskuðu eftir lagabreytingunum til þess og það hefur verið niðurstaða stjórnvalda að heimild væri í lögunum til þess að slitastjórn Spron gæti með sama hætti greitt fyrrverandi starfsmönnum þess fjármálafyrirtækis laun,“ sagði formaður viðskiptanefndar.
Frumvarp nefndarinnar sem heimilar ótvírætt að laun verði greidd úr þrotabúi Spron var lögfest á Alþingi í dag. Alls samþykktu 47 þingmenn frumvarpið.
Það tók Alþingi aðeins tæpar tuttugu mínútur að lögfesta frumvarpið en karpað hefur verið um málið í tæpar tvær vikur.
Frumvarpið fer nú til ríkisstjórnarinnar. Að lokinni staðfestingu forseta Íslands og birtingu í Stjórnartíðindum öðlast lögin gildi.