Ólöf Lilja Sigurðardóttir, sem sigraði í maraþonhlaupi Akureyrarhlaupsins á laugardag, gagnrýndi skipulag hlaupsins í samtali við blaðamann Morgunblaðsins í dag. Sigur Ólafar í hlaupinu hefur verið harðlega gagnrýndur þar sem hún örmagnaðist skömmu áður en hún kom í mark og fékk aðstoð við að komast yfir marklínuna.
Ólöf segir engin skilti hafa verið í bænum til að vísa hlaupurunum rétta leið og að hún hafi því bæði hlaupið lykkjur um bæinn og þurft að eyða orku í að spyrja til vegar. Þá segir hún hlaupurum ekki hafa verið sinnt nægilega vel og hún hafi m.a. þurft að biðja um vatn er hún kom á vatnsstöð.
„Það voru líka brekkur upp móti í restina sem taka rosalega úr manni kraft," sagði hún. „Ég sagði við skipuleggjendurna að ég væri ferlega fúl því það væri asnalegt að láta okkur í maraþoni, sem er nógu erfitt að hlaupa, hlaupa upp brekkur seinasta kílómeterinn," sagði hún.
„Ég var örmagna þegar ég kom inn á völlinn, náði að skrönglast hringinn og hneig svo niður. Ég hugsaði líka að það væri skrýtið að mér hefði ekki tekist að taka 1-2 skref í viðbót. Ég hneig bara niður fyrir framan marklínuna. "
Óskar Þór Halldórsson, verkefnastjóri mótsins, sagði í samtali við blaðamann Morgunblaðsins fyrr í morgun að málið væri í athugun og það hefðu verið mistök að hafa ekki dómara við marklínuna.