Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð héraðsdóms um að menn sem ákærðir hafa verið fyrir íkveikju í íbúðarhúsi, skuli áfram sæta gæsluvarðhaldi en þó ekki lengur en til 7. ágúst. Mennirnir eru í haldi á grundvelli almannahagsmuna.
Með ákæru ríkissaksóknara sem gefin var út á föstudag, voru þrír menn ákærðir fyrir brennu. Þeir helltu bensíni úr brúsa á útidyrahurð íbúðarhúss, kveiktu í bensíninu og ollu með því eldsvoða sem hafði í för með sér almannahættu.
Þá er einn mannanna að auki ákærður fyrir umferðarlagabrot og fjársvik, með því að hafa ritað annað nafn en sitt eigið á skuldaviðurkenningu í því skyni að komast hjá því að greiða skuldina.
Samkvæmt skýrslu dómkvadds matsmanns gat íkveikjan leitt til almannahættu, bæði varðandi húseignina og íbúa hennar, en eldurinn var í anddyri hússins, einu fullgildu flóttaleiðinni frá íbúðinni.
Mennirnir hafa setið í gæsluvarðhaldi frá 6. júní. Að mati ákæruvaldsins krefjast almannahagsmunir þess að þeir sæti gæsluvarðhaldi allt þar til máli þeirra sé lokið með dómi en brotið varðar allt að 16 ára fangelsi.