Íslensk umsókn rædd í Noregi

Mun Evrópusambandsumsókn Íslands hafa áhrif á afstöðu Norðmanna til ESB?
Mun Evrópusambandsumsókn Íslands hafa áhrif á afstöðu Norðmanna til ESB? Reuters

Umsókn Íslands að Evrópusambandinu er nú farin að hafa áhrif á stjórnmálaumræðu í Noregi ef marka má fréttir í norska dagblaðinu Aftenposten. Þannig segir leiðtogi Hægri Evrópusinna þar í landi að ESB sé mikilvægasta utanríkismálið nú í aðdraganda norsku þingkosninganna, sem fram fara í september, þar sem Ísland ætli nú að senda umsókn sína inn til sambandsins. Það muni veikja og jafnvel grafa undir samningnum um evrópska efnahagssvæðið.

Formaður norska Framfaraflokksins, Siv Jensen, er nú undir þrýstingi um að upplýsa um afstöðu sína til Evrópusambandsins fyrir kosningarnar, bæði frá fylgismönnum og andstæðingum norskrar Evrópusambandsaðildar. Heming Olaussen, leiðtogi hreyfingarinnar „Nei við ESB" óttast þannig að Evrópusambandsaðild geti orðið skiptimynt í hugsanlegum stjórnarviðræðum Hægriflokksins og Framfaraflokksins eftir kosningar.

Sömuleiðis hvetur Paal Frisvold, leiðtogi Evrópuhreyfingarinnar Jensen, til að taka afstöðu með Evrópusambandsaðild og segir að með því tæki hún undir skoðanir flokkssystkina sinna.

Svipaða afstöðu tekur Nikolai Astrup, sem leiðir hægrisinnaða Evrópusinna en hann segir ESB málin stærsta kosningamálið á sviði utanríkismála nú í aðdraganda kosninganna. Það rökstyður hann m.a. með því að Ísland muni að öllum líkindum senda inn umsókn sína til sambandsins innan tíðar. Það muni veikja samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, eða í versta falli grafa undan honum. Hann telur óábyrgt af Jensen að taka ekki afstöðu til málsins fyrir kosningarnar. „Kjósendur eiga rétt á að vita þetta," segir hann og bætir því við að Hægriflokkurinn muni setja umsókn að ESB ofar ríkisstjórnarsamstarfi. „Hægriflokkurinn mun ekki eiga aðild að ríkisstjórn sem útilokar Evrópusambandsmálið," segir hann.

Talsmaður Framfaraflokksins í utanríkismálum vill engu svara spurningum um Evrópumál fyrir kosningarnar en segir að flokkurinn muni samþykkja þær niðurstöður sem hugsanleg þjóðaratkvæðagreiðsla myndi leiða til, jafnvel þótt 60% kjósenda Framfaraflokksins séu mótfallnir aðild, að því er skoðanakannanir hafa bent til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert