Magnús Gunnarsson, fyrrverandi formaður bankaráðs Búnaðarbanka Íslands, segir að lán Búnaðarbanka Íslands til Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgúlfssonar hafi verið veitt í apríl 2003. Þá hafði ríkið selt bankann og nýir eigendur skipað nýtt bankaráð.
Síðar var Búnaðarbankinn sameinaður Kaupþingi, að því er segir í yfirlýsingu frá Magnúsi.
Björgólfsfeðgar eru í persónulegum ábyrgðum fyrir mörgum skuldum
Samsonar. Sérstaklega á það við um Björgólf Guðmundsson. Meðal annars
eru þeir í persónulegri ábyrgð fyrir láni hjá Nýja Kaupþingi, sem var
tekið þegar félagið keypti 45,8 prósent í Landsbankanum árið 2003. Þeir
hafa lagt fram tilboð um afskrift helmings af skuldinni, en því hefur
ekki verið svarað enn. Björgólfur G. er í ábyrgðum fyrir 58 milljörðum
en telur mögulegt að ná 12 á móti.
Á aðalfundi Búnaðarbanka Íslands hf. þann 22. mars 2003 voru eftirtaldir kjörnir í bankaráð: Elín Sigfúsdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Búnaðarbankans, Finnur Ingólfsson, forstjóri Vátryggingafélags Íslands, Hjörleifur Jakobsson, forstjóri Olíufélagsins, Jón Helgi Guðmundsson, forstjóri og stjórnarformaður BYKO og dr. Michael Sautter, framkvæmdastjóri hjá Société Générale í Þýskalandi og Austurríki.
Elín Sigfúsdóttir hafði átt sæti í bankaráði Búnaðarbankans í fjögur ár og Jón Helgi Guðmundsson hafði verið bankaráðsmaður frá aðalfundi 2002 en Finnur, Hjörleifur og Sautter leystu af hólmi fulltrúa ríkisins í stjórn bankans.
Eftirtaldir voru kjörnir varamenn á fundinum:
Guðmundur Kristjánsson fyrir Elínu Sigfúsdóttur
Margeir Daníelsson fyrir Finn Ingólfsson
Jón Þór Hjaltason fyrir Hjörleif Jakobsson
Þórður Magnússon fyrir Jón Helga Guðmundsson
Guðmundur Hjaltason fyrir dr. Michael Sautter.
Þegar Kaupþing og Búnaðarbankinn sameinuðust þann 27. maí 2003 var bankaráð sameinaðs banka skipað Sigurði Einarssyni formaður stjórnar Kaupþings Búnaðarbanka hf. En auk hans voru eftirfarandi í nýju bankaráði: Ásgeir Thoroddsen hrl., fyrrum varaformaður stjórnar Kaupþings, Gunnar Páll Pálsson, formaður VR, Tommy Persson, forstjóri Länsförsäkringar AB í Svíþjóð, sem báðir sátu í stjórn Kaupþings.
Af þeim sem áður sátu í bankaráði Búnaðarbanka Íslands tóku Hjörleifur Jakobsson, forstjóri Olíufélagsins hf., Finnur Ingólfsson, forstjóri VÍS, og Jón Helgi Guðmundsson, forstjóri BYKO, sæti í stjórn sameinaðs banka.
Tveir nýir stjórnarmenn bættust í hópinn; þeir Bjarnfreður Ólafsson, hdl. og eigandi lögmannsstofunnar Taxis, og Peter Gatti, framkvæmdastjóri Hauck & Aufhäuser í Þýskalandi.
Varastjórn var skipuð þremur fyrrum varamönnum í bankaráði Búnaðarbanka, þeim Guðmundi Hjaltasyni, forstjóra Kers, Jóni Þór Hjaltasyni, framkvæmdastjóra, og Þórði Magnússyni, MBA.
Þeir Panikos Joannou Katsouris, fjármálastjóri KFF í Englandi, og Hreinn Jakobsson, forstjóri Skýrr, sem áður voru varamenn í stjórn Kaupþings og Antonio Yerolemou, stjórnarformaður KFF á Englandi og fyrrum aðalmaður í stjórn Kaupþings, sátu einnig í varastjórn sameinaðs banka.
Til viðbótar sátu Hannes Smárason, fjármálastjóri deCODE, Margeir Daníelsson, framkvæmdastjóri Samvinnulífeyrissjóðsins, og dr. Julianna Borsos-Torstila, varaforstjóri Kaupþing Sofi í Finnlandi, í varastjórn bankans.