Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði á Alþingi í dag að mikið klúður lægi að baki því að fulltrúi Seðlabankans í samninganefndinni um Icesave-samkomulagið hefði ekki ráðfært sig við lögfræðinga bankans. Hann sagði það vekja verulegar efasemdir um faglega hæfni bankans til í afgreiðslu á þessu máli og öðrum.
„Það að ríkisstjórnin leiti eftir fulltrúa bankans í samninganefndina og að sá fulltrúi ráðfæri sig ekki við lögfræðinga Seðlabankans, sem eru á sömu skrifstofu, og fylgi ekki þeim lagaskyldum sem á honum hvíla, um að fara ekki í gegnum lögfræðiþátt málsins með lögfræðingum bankans, það er slíkt klúður að það hlýtur að vekja verulegar athugasemdir um faglæga hæfni Seðlabankans í afgreiðslu á þessu máli og öðrum,“ sagði Helgi.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði í kjölfarið tilefni til að vekja athygli manna á orðum Helga því með þeim væri hann að lýsa yfir fullkomnu vantrausti á Svein Harald Øygard, seðlabankastjóra.