Efnisgjald upp á 25 þúsund krónur á önn verður áfram innheimt í framhaldsskólum landsins næstu þrjú skólaár, samkvæmt frumvarpi sem menntamálaráðherra lagði fram á Alþingi í kvöld. Efnisgjaldið skilaði framhaldsskólum landsins 200 milljónum króna árið 2008.
Samkvæmt lögum um framhaldsskóla sem tóku gildi 1. ágúst 2008, voru gjaldtökuheimildir framhaldsskóla þrengdar verulega. Í 45. grein laganna segir m.a. að ekki sé heimilt að innheimta gjald fyrir efni sem nemendum er látið í té samkvæmt einhliða ákvörðun skóla. Þó er heimilt að innheimta efnisgjald af nemendum fyrir efni sem skóli lætur nemendum í té ef nemandi hefur af því ávinning eða sérstök not. Þá skal gjaldið taka mið af raunverulegum efniskostnaði og framlögum til skóla í fjárlögum til að mæta efniskostnaði.
Samkvæmt frumvarpi sem Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra lagði fram á Alþingi í kvöld verður framhaldsskólum, eftir sem áður heimilt skólaárin 2009–2010, 2010–2011 og 2011–2012 að innheimta af nemendum sem njóta verklegrar kennslu efnisgjald fyrir efni sem skóli lætur nemendum í té og þeir þurfa að nota í námi sínu. gjaldið skal taka mið af raunverulegum efniskostnaði. Efnisgjald skal þó aldrei vera hærra en 50 þúsund krónur á skólaári eða 25 þúsund krónur á önn.
Með frumvarpi Katrínar Jakobsdóttur, menntamálaráðherra er lagt til að gildistöku ákvæðis í lögunum, um að skólum sé óheimilt að innheimta efnisgjöld fyrir efni sem nemendum er látið í té samkvæmt einhliða ákvörðun skóla, verð frestað til ársins 2012.
Annar tónn í Katrínu í desember 2007
Þegar gjaldtökuheimildir voru þrengdar af þáverandi menntamálaráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, gerði Katrín Jakobsdóttir, sem þá var óbreyttur þingmaður, gjaldtöku í framhaldsskólum að umtalsefni. Í ræðu sem hún flutti á Alþingi 7. desember 2007 sagði hún;
„Ég minni líka á frumvarp hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar í tengslum við þetta, sem ég er reyndar meðflutningsmaður að, um ókeypis námsgögn í framhaldsskólum. Þar leggjum við til einfalda breytingu um að kennsla í framhaldsskólum skuli veitt nemendum að kostnaðarlausu og óheimilt sé að krefja nemendur eða forráðamenn þeirra um greiðslu fyrir kennslu, námsgögn eða annað efni sem nemendum er gert skylt að nota í námi sínu og samrýmist ákvæðum laga þessara og aðalnámskrá. Ríkinu yrði skylt að leggja til og kosta kennslu og námsgögn er fullnægja ákvæðum aðalnámskrár. Ég vil minna á að í þessu dæmi sem og í öðrum frumvörpum er gjaldfrelsi lykilatriði til að tryggja jafnræði til náms.“
200 milljóna efnisgjald
Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um frumvarp sem frestar gildistöku ákvæðis um þrengri gjaldtökuheimildir framhaldsskóla segir að samkvæmt bókhaldi 2008 hafi tekjur framhaldsskóla af efnisgjöldum verið um 200 milljónir króna. Þá segir að verði frumvarpið ekki samþykkt muni tekjur framhaldsskólanna lækka um 200 milljónir króna og rekstrarstaða þeirra versna sem því nemur.