„Það er náttúrlega ekki einsdæmi að málum ljúki svona hratt en þarna var ekki um játningamál að ræða,“ segir Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari. „Þá verður líka allt að ganga upp hjá lögreglu og ákæruvaldinu sem og fyrir dómstólum en þar var vilji til þess að setja þetta mál í forgang.“ Málið sem Valtýr vísar til er nýlegt nauðgunarmál þar sem málsmeðferðartími frá broti og til þess að dómur gekk var aðeins um sjö vikur.
Valtýr segir málsmeðferðarreglur ríkissaksóknara miðast við að rannsókn nauðgunar taki að jafnaði ekki lengri tíma en sextíu daga og tekin sé ákvörðun um málsókn hjá ríkissaksóknara innan fimmtán daga.
Valtýr segir mál sem koma til meðferðar hjá embættinu umfangsmeiri og flóknari en áður. „Ákærandinn er jafnan einn á móti fjölda verjenda. Ábyrgðin er því mikil þar sem hann þarf að fylgjast með öllum þráðum málsins fyrir dómi, boða vitni, útvega túlka, halda utan um tæknivinnu, auk þess að reka málið lögfræðilega.“