Lífeyrissjóðurinn Kjölur mun skerða lífeyrisréttindi um 19% frá og með síðustu mánaðamótum og að öllum líkindum enn frekar á næsta ársfundi. Þetta staðfestir Halldór Kristinsson, framkvæmdastjóri sjóðsins, en honum er stýrt af Landsbankanum. Sérstakur saksóknari rannsakar sjóðinn.
Raunávöxtun sjóðsins á síðasta ári var neikvæð um 28%. Tapið er að mestu vegna taps á skuldabréfum fyrirtækja og banka, að sögn Halldórs.
Skerðingin er til þess að fara að lögum um tryggingafræðilega úttekt, þ.e. að mismunur á framtíðarskuldbindingum og eignum sé ekki yfir mínus 15%. Við síðustu tryggingafræðilegu úttekt sjóðsins var staðan um -30%. Því þurfti að skerða réttindin, að sögn Halldórs.
Sérstakur saksóknari hóf í mars síðastliðnum rannsókn á þeim sem stýrðu fimm lífeyrissjóðum, þar á meðal Kili, vegna gruns um að fjárfestingar sjóðanna í tilteknum félögum, þar á meðal Landsbankanum, hefðu farið yfir lögbundið hámark. Sjóðirnir voru allir í stýringu hjá Landsbankanum.
Í kjölfarið setti fjármálaráðuneytið stjórnina og framkvæmdastjóra af 17. mars. Í síðustu viku var sjóðnum skilað aftur í hendur réttkjörinnar stjórnar sjóðsins.
Hálfdán Hermannsson, stjórnarformaður Kjalar, segir að settur umsjónarmaður hafi tekið ákvörðun um skerðingu lífeyrisréttinda.