Niðurstaða Alþingis um aðildarumsókn að Evrópusambandinu mun liggja fyrir á hádegi á morgun. Þingfundi mun ljúka í kvöld klukkan tíu, hefjast aftur í fyrramálið klukkan tíu og ljúka klukkan tólf. Þá fer fram atkvæðagreiðsla. Þetta staðfesti Sigurður Kári Kristjánsson, aðstoðarmaður formanns Sjálfstæðisflokksins, við mbl.is.
Samkomulag var gert um þetta fyrirkomulag milli flokkanna á fundi nú klukkan sex.
Að sögn Illuga Gunnarssonar, þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, er hugmyndin sú að talsmenn flokkanna í þessu máli stígi í pontu og atkvæði verði greidd að því loknu. Illugi segir samstöðu hafa verið meðal manna um að ljúka umræðunni með þessum hætti.
„Þetta hefur verið í þinginu í töluvert langan tíma og nú er kominn tími til að taka afstöðu.“