Eftir Þórð Snæ Júlíusson
Efnahagsleg áföll þurfa að dynja yfir til að Icesave-skuldbindingarnar einar og sér leiði til þess að ríkissjóður geti ekki staðið við erlendar skuldbindingar sínar ef áhersla verður lögð á hagvöxt á næstu árum. Þetta kemur fram í umsögn Seðlabanka Íslands um Icesave-samningana og greiðslubyrði erlendra lána sem kynnt var á fundi fjárlaganefndar á mánudag, og Morgunblaðið hefur undir höndum.
Lokaútgáfa umsagnarinnar verður kynnt í dag. Í umsögninni kemur fram að erlendar skuldir íslenska þjóðarbúsins muni ná hámarki 2010 er þær verða 2.953 milljarðar kr., eða rúm 200% af vergri landsframleiðslu ársins í ár.
Seðlabankinn hefur þá framkvæmt greiningu á því hve mikið þurfi að hækka virðisaukaskatt til að fjármagna alla Icesave-skuldina svo ávinningur ríkissjóðs verði meiri en heildargreiðslur vegna hennar í lok árs 2025. Þá kemur fram í umsögninni að Seðlabankinn ráðgeri að selja hinn danska FIH árið 2012 fyrir rúmlega 70 milljarða kr. og á það fé að renna í gjaldeyrisvarasjóð bankans.
Seðlabankinn telur að hægt verði að greiða fyrir Icesave með ýmsu móti og hann hefur meðal annars gert greiningu á því hversu mikið þyrfti að hækka virðisaukaskatt til að fjármagna skuldina. Skýrt er þó tekið fram að bankinn er ekki að mæla með þessari leið, heldur sé einungis um dæmi að ræða.
Þar er tiltekið að virðisaukaskattur gæti hækkað annars vegar úr 7 prósentum í 7,83 prósent, og hins vegar úr 24,5 prósentum í 27,39 prósent. Seðlabankinn segir að ef þessi leið verði farin muni uppsafnaður ávinningur ríkissjóðs í lok árs 2025, þegar Icesave-skuldin verður að fullu greidd, verða meiri en heildargreiðslur vegna hennar.