Þrjú ný tilfelli inflúensu A (H1N1) hafa verið staðfest hér á landi og og eru staðfest tilfelli hér á landi því alls orðin sjö talsins. Um er að ræða fólk á aldrinum 18-19 ára, karl og konu sem komu frá Ástralíu og konu sem kom frá Bandaríkjunum.
Fram kemur í tilkynningu frá sóttvarnalækni og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra að fólkið hafi allt veikst eftir heimkomuna en ekki alvarlega. Tekin voru sýni í greiningu og fékkst jákvæð niðurstaða í gær.
Alls hafa nú verið greind tæplega 120.000 tilfelli H1N1 í heiminum, þar af um 14.300 í tilfelli í ríkjum ESB og EFTA. Skráð dauðsföll af völdum veikinnar eru 589 í heiminum öllum, þar af 211 í Bandaríkjunum og 121 í Mexíkó.
Fram kemur í yfirlýsingunni að svo virðist sem dánarhlutfall af völdum inflúensu A (H1N1) sé svipað og í árstíðabundinni inflúensu. Fólk með undirliggjandi sjúkdóma sé í mestri hættu á alvarlegum veikindum en þó hafi verið greint frá stöku dauðsföllum hjá fullfrískum einstaklingum. Í langflestum tilfellum veldur sýkingin þó inflúensulíkum einkennum sem ganga sjálfkrafa yfir.
Sóttvarnalæknir hvetur lækna til að taka sýni hjá sjúklingum með inflúensulíkum einkennum. Sýni skulu tekin hjá sjúklingum sem eru nýkomnir frá löndum þar sem inflúensan er í mestri útbreiðslu. En ekki er síður mikilvægt að taka sýni frá einstaklingum sem eru með einkenni inflúensu og hafa smitast á Íslandi án tengsla við útlönd.