Umferðartjónum á höfuðborgarsvæðinu fækkaði um 1,5% í fyrra miðað við 2007. Fækkunin er meiri á landsbyggðinni en heildarfækkun á landinu var 5%. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Forvarnarhúss um tjónin á höfuðborgarsvæðinu árið 2008.
Algengustu ástæður tjóna eru einbeitingarleysi við akstur. Ökumenn telja sig geta nýtt „dauða tímann“ undir stýri til einhvers annars en aksturs og átta sig ekki á þegar eitthvað skyndilegt gerist í kringum bílinn.
Gróflega má áætla að heildarkostnaður vegna tjóna og slysa í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu sé ekki undir 15 milljörðum króna.
Aftanákeyrslur eru þau slys sem helst valda skaða, en þær eru ásamt akstri á kyrrstæða hluti og því að bakka á eitthvað, algengustu umferðartjónin.
Sem fyrr eru það ungir ökumenn sem valda flestum umferðaróhöppum.