Skuldugum bændum, sem skulda erlend lán, hafa verið boðnir óásættanlegir skilmálar við skilmálabreytingar, að mati Bændasamtakanna. Þau hafa beint því til ráðunauta að hvetja bændur til að skoða vel skilmála áður en þeir skrifa upp á breytingar á lánum.
Skuldastaða margra bænda er mjög erfið. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er talið að 50-100 kúabændur séu komnir í mikla klemmu vegna þungbærra lána. Margir þeirra tóku lánin í uppsveiflunni, þegar krónan var sem allra sterkust. Þá riðu menn um héruð og buðu bændum lán í erlendri mynt með lágum vöxtum. Þetta munu bæði hafa verið erindrekar íslenskra og erlendra banka.
Bændasamtökin hafa nýlega fengið inn á sitt borð mál bænda vegna skilmálabreytinga á erlendum lánum og voru þeim settir þröngir kostir. Eiríkur Blöndal, framkvæmdastjóri, sagði að samtökunum þætti sem skilmálar þessir væru umfram það sem telja mætti eðlilegt.
Harkalegar aðfarir
Í einu tilviki var um að ræða tímabundna breytingu á afborgunum af körfuláni í frönkum og jenum. Bankinn bauð bóndanum að taka evrulán til að borga upp gamla lánið. Ekki var gefinn kostur á að breyta skilmálum á gamla láninu. Bændasamtökin telja ýmislegt athugavert við skilmála bankans.
Þau benda m.a. á að við að breyta yfir í evrur hækki vextirnir talsvert. Einnig verður heimilt að breyta vöxtum á 12 mánaða fresti. Þá áskilur bankinn sér rétt, hvenær sem er á lánstímanum, til að breyta láninu í íslenskt verðtryggt lán með verðtryggðum kjörvöxtum. Nóg er að tilkynna breytinguna með fimm daga fyrirvara. Einnig getur bankinn krafist viðbótartryggingar, með tveggja vikna fyrirvara eða minna, ef verðmæti veða fer niður fyrir 75% af eftirstöðvum lánsins.
Í öðru tilviki óskaði bóndi eftir að gera viðauka við skuldabréf í erlendri mynt. Hann vildi greiða fasta upphæð í 12 mánuði inn á sérstakan reikning. Upphæðin yrði notuð til að borga vexti af láninu næsta árið. Um leið yrði lánstíminn lengdur um ár. Það sem verður umfram vextina fari í að greiða niður höfuðstól lánsins.
Meðal skilmála bankans var að færi gengisvísitala krónunnar niður fyrir 150 stig eða upp fyrir 300 stig mætti bankinn borga innistæðuna á reikningnum inn á lánið án nokkurs fyrirvara. Einnig að bankanum verði heimilað að hækka vaxtakjör einhliða á þriggja mánaða fresti. Enn fremur að breyta megi samsetningu lánsins einhliða í íslenskar krónur. Tilkynna skal breytinguna með tveggja vikna fyrirvara.
„Okkar sýn er sú að þarna sé verið að fara ákaflega harkalega að einstaklingum,“ sagði Gunnar Guðmundsson, sviðsstjóri ráðgjafarsviðs Bændasamtakanna. Þeir telja að skilmálbreytingar á við þessar reynist náðarhögg fyrir lántakendurna.