Geta safnað innlánum áfram

Til stendur að fjármagna ríkisbankana eftir helgina, en á morgun …
Til stendur að fjármagna ríkisbankana eftir helgina, en á morgun er lokafrestur til að ganga frá skilmálum vegna uppgjörs. mbl.is/Golli

Ef erlendir kröfuhafar eignast hlut í nýju íslensku ríkisbönkunum er ekkert sem kemur í veg fyrir í núverandi reglum um innstæðutryggingar að þeir stofni útibú á EES-svæðinu og safni þar innlánum. Líklegt þykir þó að fjármálaeftirlit landa á EES-svæðinu þrengi heimildir íslenskra banka til að safna innlánum í ljósi bankahrunsins og meðan lagaleg óvissa er um ábyrgð vegna reikninganna.

„Reglurnar hafa ekkert breyst. [...] Þú getur rétt ímyndað þér að við munum fylgjast betur með því,“ segir Gunnar Þ. Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, aðspurður hvort ekki sé lykilatriði að fram fari endurskoðun á heimildum bankanna til þess að safna innlánum áður en erlendum kröfuhafar eignast hlut í þeim. „Það er hægt að setja alls konar skilyrði ef af erlendu eignarhaldi verður,“ segir Gunnar.   

Unnið að breytingum á reglunum
Unnið er að því á vettvangi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að breyta reglum um innstæðutryggingar en engar efnislegar breytingar hafa verið gerðar á þeim tilskipunum sem gilda og lög um Tryggingarsjóð innstæðueigenda eru byggð á. Lögin tóku gildi 1. janúar árið 2000 og voru sett til þess að uppfylla skuldbindingar EES-samningsins um innleiðingu tilskipana í landsrétt.

Eins og greint hefur verið frá í Morgunblaðinu standa nú viðræður milli erlendra kröfuhafa föllnu bankanna og íslenskra stjórnvalda um hugsanlega aðkomu þeirra fyrrnefndu að eignarhaldi á nýju bönkunum. Skilanefndir bankanna eru fulltrúar kröfuhafanna í þessum viðræðum. Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, sagði í Morgunblaðinu í dag að hann teldi að það væru „þokkalegar horfur“ á því erlendir kröfuhafar eignuðust hlut í nýju bönkunum. Gylfi telur sjálfur æskilegt að erlendir kröfuhafar verði hluthafar í bönkunum.

Á morgun er lokafrestur til að ganga frá skilmálum fjármálagernings vegna uppgjörs nýju ríkisbankanna, Landsbankans, Íslandsbanka og Kaupþings. Að því loknu verða þeir fjármagnaðir, en samkvæmt upplýsingum mbl.is verður það líklega ekki fyrr en eftir helgi. Til stendur að ríkissjóður fjármagni þá með 280 milljarða króna eiginfjárframlagi og er stefnt að því að eiginfjárhlutfall þeirra verði yfir 16%, en lögum samkvæmt má það ekki vera lægra en 8%.

Gunnar Þ. Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins.
Gunnar Þ. Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Mynd Pétur Geir Kristjánsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert