Á vefsíðu Tryggingastofnunar, tr.is, hefur verið sett upp ábendingaform fyrir meint bótasvik úr almannatryggingakerfinu. Á forsíðu tr.is er hnappur „Ábendingar um bótasvik“ sem leiðir til ábendingaforms sem einfalt er að fylla út.
Ekki er nauðsynlegt að gefa upp nafn, netfang eða síma tilkynnanda en það getur flýtt fyrir afgreiðslu að geta haft samband við hann. Farið er með allar ábendingar sem trúnaðarmál.
Á vef Tryggingastofnunar kemur fram að tryggingasvik er alvarlegt og vaxandi þjóðfélagslegt vandamál, ekki aðeins á Norðurlöndum, heldur á Vesturlöndum öllum. Það eru hagsmunir allra að koma í veg fyrir slík svik úr sameiginlegum sjóði, sem ætlaður er til aðstoðar þeim sem standa höllum fæti.