Leita umsagna um rannsóknarboranir í Gjástykki

Í Gjástykki rann mikið hraun yfir gróið land á árunum …
Í Gjástykki rann mikið hraun yfir gróið land á árunum 1975 -84 mbl.is

Frummats­skýrsla um bor­un allt að þriggja rann­sókn­ar­bor­hola á ein­um borteig í Gjástykki í Þing­eyj­ar­sveit hef­ur verið lögð fram af hálfu Lands­virkj­un­ar til um­sagn­ar. Áform um bor­an­ir á þessu svæði eru liður í sam­starfi Lands­virkj­un­ar og Þeistareykja ehf. um rann­sókn­ir og könn­un á virkj­un­ar­mögu­leik­um há­hita­svæða á Norðaust­ur­landi, það er á Þeistareykj­um, í Kröflu, Bjarn­ar­flagi og Gjástykki.

Lands­virkj­un er með rann­sókn­ar­leyfi í Gjástykki auk þess sem samið hef­ur verið við land­eig­end­ur um rann­sókn­ar- og nýt­ing­ar­rétt þess hluta Gjástykk­is sem til­heyr­ir Reykja­hlíð. Jarðhita­kerfið í Gjástykki er talið ná yfir um 10 km2 svæði.

Rann­sókn­ir, sem gerðar hafa verið á Gjástykk­is­svæðinu und­an­far­in ár benda til þess að virkja megi jarðhita þar. Til að fá úr því skorið hvort um nýt­an­leg­an jarðhita til vinnslu sé að ræða þarf að bora rann­sókna­hol­ur og afla með því nauðsyn­legra gagna um eðli jarðhit­ans í Gjástykki.

Rann­sókn­ar­svæði Lands­virkj­un­ar er um 32 km2 að stærð og nær til Þing­eyj­ar­sveit­ar, Norðurþings og Skútustaðahrepps. Sam­kvæmt stefnu viðkom­andi sveit­ar­fé­laga verður Gjástykki aft­ast í fram­kvæmdaröð jarðhita­virkj­ana í Þing­eyj­ar­sýsl­um, að því er seg­ir í frummats­skýrsl­unni.

Í fyrstu verður lögð áhersla á rann­sókn­ir þar, þar með tald­ar rann­sókna­bor­an­ir. Ekki verður virkjað í Gjástykki nema hin svæðin gefi ekki nægj­an­lega orku fyr­ir starf­semi og at­vinnu­upp­bygg­ingu í Þing­eyj­ar­sýsl­um.

Gjástykk­is­bunga er lít­il dyngja milli Hrúta­fjalla og Sand­múla­hæða og sú eina sem ör­ugg­lega hef­ur gosið inn­an Kröflu­kerf­is­ins. Gjástykki er sigdal­ur, sem ligg­ur yfir miðja Gjástykk­is­bungu, og er að hluta til þakið ung­um hraun­um. Svæðið er í 400-500 m h.y.s. og vel aðgengi­legt til vinnslu. Í Kröflu­eld­um rann hraun yfir syðsta hluta Gjástykk­is og nær kol­svart hraunið norður fyr­ir Hitu­hóla, mó­bergs­fell í ná­grenni fyr­ir­hugaðs fram­kvæmda­svæðis. Jarðmynd­an­ir í Gjástykki eru mó­berg og bólstraberg í hól­um og smá­fell­um og allt um­hverf­is eru hraun af ólík­um upp­runa og aldri. Fram­kvæmd­ir tengd­ar rann­sókna­bor­un­um í Gjástykki fela í sér gerð borteigs, bor­un og próf­un á rann­sókna­hol­um.

Aðkoma að borteig er eft­ir fyr­ir­liggj­andi veg­slóð sem grein­ist í aust­ur frá veg­in­um að Þeistareykj­um um Hólasand. Leiðin er tæp­lega 11 km löng af Þeistareykja­vegi og ligg­ur meðfram girðingu, norðan við Gæsa­fjöll. Síðastliðin tvö sum­ur (2007 og 2008) hef­ur veg­slóðin verið lag­færð og styrkt á veg­um Þeistareykja ehf. í sam­ráði við Þing­eyj­ar­sveit til að bæta aðgengi að Gjástykki. Nokkr­ir kafl­ar veg­slóðar­inn­ar að fyr­ir­huguðum borteig verða lag­færðir og hún styrkt enn frek­ar skemm­ist hún á fram­kvæmda­tíma.

Fyr­ir­hugaður borteig­ur verður við hliðina á kjarna­holu GR-3, sem var boruð haustið 2007, norðan við veg­slóðina sem ligg­ur þar yfir hraun frá Kröflu­eld­um. Á borteig þarf að út­búa stæði fyr­ir bor­inn og fylgi­hluti hans. Flat­ar­mál borteigs­ins verður 3.500 til 5.500 m2. Áætluð fylli­efn­isþörf fyr­ir borteig­inn er allt að 3.000 m3. Affalls­vatni frá bor­un­um og blást­urs­próf­un­um verður veitt í lögn­um út í ná­læg­ar sprung­ur eða gjár.

Ráðgert er að opna námu vest­an við Drauga­grund­ir, norðan við Gæsa­fjöll, til að ná í fyll­ing­ar­efni í fyr­ir­hugaðan borteig. Efnið úr námun­um nýt­ist einnig við lag­fær­ing­ar á veg­slóðinni að borteign­um. Ef rann­sókna­bor­an­ir leiða í ljós að bor­hol­ur verði ekki nýtt­ar sem vinnslu­hol­ur verður gengið frá svæðinu. Við frá­gang yrðu um­merki eft­ir bor­an­irn­ar fjar­lægð og svæðið fært í fyrra horf eins og mögu­legt er, að því er seg­ir í frummats­skýrsl­unni.

Skýrsl­an í heild

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert