Misbýður málsmeðferðin í Icesave

Elvira Mendez, lektor í Evrópurétti við lagadeild Háskóla Íslands.
Elvira Mendez, lektor í Evrópurétti við lagadeild Háskóla Íslands. mbl.is

„Mér misbýður mjög sú meðferð sem okkur er boðið upp á því að ég álít að hún sé ekki í samræmi við þær kröfur sem gera verður þegar ríki sem á aðild að Evrópska efnahagssvæðinu á í hlut," segir Elvira Mendez, sérfræðingur í Evrópurétti við Háskóla Íslands, um aðkomu Evrópusambandsríkja að Icesave-samningnum.

Í stað þess að taka málið upp á sína arma hafi sambandið ákveðið að það væri milliríkjamál sem, að hennar mati, sé ekki í samræmi við þá Evrópulöggjöf sem hún þekki.

Hún vilji hins vegar ekki ganga svo langt að fullyrða að lög hafi þar með verið brotin. Það sé Evrópudómstólsins að skera úr um það.

„José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar sambandsins, lýsti því yfir í október að ríkin sem hlut ættu að máli yrðu að leysa það. Að mínu viti var það óviðeigandi afstaða.“

Þvert á jafnræðisregluna

Hún bætir því svo við að í lögum Evrópusambandsins sé kveðið á um jafnræði milli ríkja, mannréttindi og samvinnu evrópskra ríkja.

Að því gefnu - og Mendez leggur áherslu á að hún segi það með þeim fyrirvara - að sambandið hafi neitað að taka upp málið hafi það þar með gengið þvert á þessa hefð.

Ef rétt reynist komi það henni mjög á óvart að sambandið skuli hafa tekið þá stefnu.  

Mendez segir margt einkennilegt við samninginn. Fyrir það fyrsta einkennist hann af tortryggni í garð dóms-, löggjafar- og framkvæmdarvalds á Íslandi, þrátt fyrir að réttarstaða Íslands sem aðila að EES eigi að vera sterk.

Ekki vikið að fullveldi þjóðarinnar

Þá sé ekki vikið að fullveldi þjóðarinnar þótt það kunni að hafa verið gert óformlega, svo sem með minnisblöðum.

Mendez lítur málið alvarlegum augum og telur að ef samningurinn nái fram að ganga muni það setja löggjöfina um innri markaðinn í uppnám, enda muni það ala á tortryggni ríkja í millum ef málalyktir fjármálahruns geti orðið þær að almenningur þurfi að borga brúsann.

Eftir að hafa reynst vel í 15 ár steyti EES-samningurinn á fyrsta stóra ágreiningsmálinu hjá aðildarríki.

Málið dragi athyglina að tveimur megingöllum samningsins. Annars vegar skorti á aðkomu aðildarríkja samningsins að lagasetningu og hins vegar takmörkuðum möguleikum borgara og ríkja að leita réttlætisins.

Mendez er jafnframt gagnrýnin á málsmeðferð ESB sem hafi afgreitt málið sem alþjóðlegt milliríkjamál í stað þess að taka það fyrir innan eigin lagastofnana. Hún átelur þá leynd sem hafi verið viðhöfð í málinu og að gengið skuli hafa verið þannig frá réttarstöðu Íslands að hún sé gerð afar veik, þvert á þá grundvallarreglu í alþjóðalögum að báðir málsaðilar skuli eiga jafnan rétt til að varnar.

Þessi regla sé höfð til grundvallar í alþjóðalögum, alþjóða viðskiptalögum og lögum um borgararéttindi.

Þetta sé spurning um jafnan rétt fyrir lögunum.

Samningsstaða Íslands afar veik

„Mér sýnist augljóst að samningsstaða Íslands sé mjög veik,“ segir Mendez og nefnir til samanburðar þá fjárhagsaðstoð og lán sem ESB veiti ýmsum ríkjum þegar á bjáti.

„Ég lít svo á að með hliðsjón af evrópskri lagahefð og lagaumhverfi Evrópusambandsins sé Icesave-samningurinn afar gagnrýniverður.“

Hún rifjar svo upp að Spánverjinn Joaquín Almunia, sem fari með efnahagsmál í  framkvæmdastjórn sambandsins, hafi í nóvember lagt til að Ísland fengi efnahagsaðstoð í líkingu við aðstoðina sem Ungverjar fengu frá ESB í kjölfar fjármálahrunsins í haust.

Almunia hafi þar lagt til að komið yrði fram við Ísland eins og það væri aðildarríki sambandsins en Bretar, Hollendingar og Þjóðverjar hefðu lagst gegn því.

Að mati Mendez hefði Ísland á þessum tímapunkti átta að spyrna við fótum og segja nei.

Gaumgæfi alla mögulega kosti

Aðspurð hvort hún telji að Ísland eigi að hafna samningnum svarar Mendez því til að hún telji að íslenskir þingmenn eigi að afla allra mögulegra gagna og kanna allar færar leiðir áður en þeir samþykki hann.

Þá beri að hafa í huga að ekki sé gert ráð fyrir greiðslum fyrstu sjö árin eftir samþykkt sem gefi tíma til að gaumgæfa hvar ábyrgðin liggur í málinu. Svo bendir hún á dómstóla Evrópusambandsins.

Mendez segir Joaquín Almunia, sem fer með efnahagsmál í framkvæmdastjórn …
Mendez segir Joaquín Almunia, sem fer með efnahagsmál í framkvæmdastjórn ESB, hafa lagt til í nóvember að Ísland fengi aðstoð í líkingu við þá sem Ungverjar fengu í haust.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert