Fækkun dómsstóla dregur úr kostnaði

Ragna Árnadóttir
Ragna Árnadóttir Kristinn Ingvarsson

Stefnt er að því að fækka héraðsdómsstólum úr átta í einn samkvæmt minnisblaði sem dóms- og kirkjumálaráðherra, Ragna Árnadóttir, lagði fram á ríkisstjórnarfundi í morgun. Með þessu verður hægt að draga úr kostnaði sem og mæta því aukna álagi sem mun verða á ákveðna dómsstóla í kjölfar efnahagshrunsins.

Ragna segir að um eina stofnun yrði því að ræða í stað átta en sú stofnun myndi ná til alls landsins og engin breyting yrði þar á. Sú stofnun myndi reka skrifstofur um allt land. Um tillögu er að ræða frá dómsstólaráði til þess að geta mætt þeim niðurskurði sem í vændum er. Á sama tíma séu ýmis miðlæg mál sem vel er hægt að vera með í einni stofnun í stað átta. Um hagræðingu sé því að ræða.

Aðspurð segir Ragna að það eigi eftir að koma í ljós síðar hvaða áhrif þetta hefur á starfsfólk dómsstólanna en auðvitað sé um ákveðin samlegðaráhrif að ræða. 

„Þetta snýst ekki síst að því með þessu gefst dómsstólnum tækifæri til þess að raða dómurum meira eftir álagi um landið. Það er eitt af því sem metið er sem mikill kostur við þetta því álagið er  mismikið," að sögn Rögnu. 

Gera má ráð fyrir því að álagið eigi eftir að aukast mikið á héraðsdómsstóla Reykjavíkur og Reykjaness á næstu mánuðum hvað varðar greiðsluaðlögun einstaklinga og heimilanna. Eins þegar eitthvað fer að koma út úr rannsókninni um efnahagshrunið.

Minnisblað ráðherra:„ Dómsmálaráðherra lagði fram í ríkisstjórn í morgun frumvarp til breytinga á lögum um dómstóla. Í frumvarpinu er lagt til að í stað þess að dómstólar á landinu séu átta með landfræðilega afmarkað umdæmi sé einn héraðsdómur fyrir allt landið. Héraðsdómur skal hins vegar hafa starfstöðvar á ýmsum stöðum á landinu þar sem dómarar hafi fastan vinnustað og verði eftir atvikum búsettir.

Dómstólaráð ákveði við hvaða starfstöð héraðsdóms einstakir dómarar eigi að hafa skrifstofu um tiltekinn eða ótiltekinn tíma. Gert er ráð fyrir að dómarar geti starfað hvar sem er á landinu án tillits til þess hvar þeir hafi skrifstofu. Lagt er til að dómstólaráð ákveði skiptingu landsins í þinghár og hvar héraðsdómur hafi starfstöðvar.   

Vegna þeirrar breytingar að héraðsdómur verður einungis einn eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um stjórn héraðsdóms hvað varðar dómstjóra og dómstólaráð. Gert er ráð fyrir að dómstjóri verði einn ásamt föstum varadómstjóra og fari hann með faglega yfirstjórn héraðsdóms og stýri verkum við meðferð og rekstur dómsmála sem hann ber ábyrgð á sama hátt og er í dag.

Hlutverk dómstólaráðs verði viðameira en er í dag og fari það með yfirstjórn alls er varðar stjórnsýslu, fjármál og málefni annarra starfsmanna við héraðsdóm en dómara. Hingað til hefur hver héraðsdómstóll haft sjálfstæðan rekstur með viðeigandi starfsemi og stjórnsýslu undir stjórn dómstórans á hverjum stað en dómstólaráð hefur deilt út til þeirra fé sem ákveðið er í einu lagi á fjárlögum.

Er gert ráð fyrir að við þessu verkefni taki nú dómstólaráð að öllu leyti.
Frumvarpið verður sent stjórnarþingflokkum til umfjöllunar og leitað eftir samþykki þeirra fyrir framlagningu frumvarpsins svo sem venja er." 


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert