Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti í kvöld konu um borð í erlenda skólaskútu sem stödd var við mynni Patreksfjarðar. Þyrlan var stödd á Ísafirði er beiðni um aðstoð barst en konan hafði veikst og var hún mjög þjáð.
Töluvert flókið er að sækja fólk, sem statt er um borð í skútu, í þyrlu. Konan var því færð um borð í léttbát ásamt aðstoðarmanni þangað sem hún var síðan sótt um borð í þyrluna. Er það töluvert nákvæmnisverk þar sem báturinn þarf að vera í togi á ákveðinni ferð til að honum hvolfi ekki undan vindi frá spöðum þyrlunnar.
Aðgerðin tókst vel og var komið með konuna á Borgarspítalann í Reykjavík skömmu eftir klukkan níu í kvöld.