Frestun Icesave slæmur kostur

„Ég teldi ekki gott að fresta afgreiðslu frumvarps um ríkisábyrgð vegna Icesave-samninganna,“ segir Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis.

Utanríkismálanefnd þingar nú með fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um ríkisábyrgð vegna Icesave-samninga en í gær komu fulltrúar Seðlabankans á fund nefndarinnar. 

Einn möguleikinn sem rætt var um í fjárlaganefnd Alþingis í morgun er að afla frekari gagna og bíða með að leggja málið fyrir Alþingi til haustsins. Þór Saari þingmaður Borgarahreyfingarinnar sagði í samtali við mbl.is í morgun að sá Icesave-samningur sem nú liggur fyrir sé slæmur samningur og að nauðsynlegt sé að skoða aðrar leiðir í því máli.

Formaður utanríkismálanefndar segist ekki geta séð að það vanti mikið af gögnum fyrir utanríkismálanefnd en vel megi vera að fjárlaganefnd þurfi á frekari gögnum að halda.

„Það liggur hins vegar fyrir gríðarlegt magn af gögnum í málinu, fleiri möppur og ég veit ekki hvenær þingmenn ætla að komast yfir þau öll. Ég tel að það sé ekki góður kostur að slá málinu á frest og það er mat flestra sem hafa komið að málinu að það sé miður gott að fresta afgreiðslu málsins. Ég heyri ekki betur en að atvinnulífið kalli eftir því að botn fáist í málið, þetta hái þeim. Ég þori ekki að fullyrða um hvort og þá hvaða afleiðingar það hefði að fresta málinu en ég held í sjálfu sér að málið sé ágætlega þroskað. Seðlabankinn hefur farið rækilega yfir það, skrifað ítarlegu skýrslu um málið og ég hef ekki séð að menn hafi hrakið það sem þar stendur,“ segir Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar.

Enn er miðað við að þingi verði frestað í næstu viku en það gæti þó breyst ef ekki næst samkomulag um afgreiðslu Icesave og annarra mála sem stjórnarmeirihlutinn vill afgreiða fyrir þingfrestun. Alþingi á að koma saman á ný fyrsta október en sá möguleiki hefur verið ræddur að kalla saman þing í tvær vikur í september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka