Fréttaskýring: Jaðrar við klofning í þinghópi borgaranna

Þingmenn Borgarahreyfingarinnar, Þráinn Bertelsson, Þór Saari, Margrét Tryggvadóttir og Birgitta …
Þingmenn Borgarahreyfingarinnar, Þráinn Bertelsson, Þór Saari, Margrét Tryggvadóttir og Birgitta Jónsdóttir Ómar Óskarsson

Mér finnst að félagar mínir hafi fjarlægst Borgarahreyfinguna með þessu. Hvort þau vilja halda áfram að starfa í þinghópi Borgarahreyfingarinnar verða þau að gera upp við sína samvisku og væntanlega stjórn flokksins,“ segir Þráinn Bertelsson alþingismaður, sem var á öndverðum meiði við aðra þingmenn síns flokks í atkvæðagreiðslunni um ESB-málið í gær.

Hinir þingmennirnir, Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari kusu gegn aðildarumsókn, þvert á loforð þeirra við kjósendur í apríl síðastliðnum. Málið hefur reynst hinum nýju flokki afar erfitt og víst er að mikillar óánægju gætir meðal grasrótarinnar, ekki síst fyrrverandi samfylkingarfólks sem vill inn í ESB en gat ekki hugsað sér að kjósa þann flokk eftir bankahrunið. Sömuleiðis tóku þingmennirnir þrír afstöðu með tillögu sjálfstæðismanna um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu, en Þráinn tók þátt í að fella hana.

Þráinn segir það klækjastjórnmál þegar fólk standi ekki við orð sín og hann sé sár þingmönnunum fyrir það. „Ég veit ekki hvernig mér mun ganga að starfa með fólki hér eftir, ef ég get ekki treyst því,“ segir hann.

Klækjum beitt í sárri neyð

Í ræðu á Alþingi í gær viðurkenndi Þór Saari að þetta væri algjör stefnubreyting af sinni hálfu og þeirra Birgittu og Margrétar. Sagðist hann axla á því ábyrgð og að sér þætti það leitt. Í fyrrakvöld funduðu þau þrjú með Herberti Sveinbjörnssyni, formanni Borgarahreyfingarinnar. Að sögn Herberts báru þau við trúnaði við hann, um það hvers vegna þau hefðu skipt um afstöðu, en þau hefðu séð gögn um Icesave-málið sem gerðu það að verkum að þau vildu reyna að knýja fram breytingar á því máli í skiptum fyrir stuðning í ESB-málinu. Sem kunnugt er hvílir leynd yfir hluta skjalanna í Icesave-málinu, en refsing liggur við því að rjúfa þá leynd.

Svo virðist sem litlu skipti hvaðan fólk kemur í stjórnmálin, úr óháðri grasrótinni eða úr innviðum fjórflokksins. Þegar í stjórnmálin er komið gera flestir það sem þeir geta til að hafa áhrif.

„Fólk er óánægt,“ segir formaðurinn um skoðun almennra flokksmanna á málinu, en hann kveðst hafa heyrt í mörgum þeirra. Sjálfur varð hann fyrir vonbrigðum með gjörðir þingmannanna. „Þetta er óttaleg framsóknarpólitík. Þarna er verið að reyna að hafa áhrif á eitt mál með því að taka, að því er virðist, afstöðu gegn sinni eigin samvisku,“ bætir hann við.

„Bæði og,“ segir Jóhann Kristjánsson, kosningastjóri Borgarahreyfingarinnar, spurður um hljóðið í almennum flokksmönnum. „Ég hef bæði heyrt í fólki sem var ósátt við þessa niðurstöðu og í fólki sem kaus okkur, jafnvel Evrópusinnuðu, sem var ánægt með að þingmenn hefðu nýtt sér þetta til að vekja athygli á Icesave-málinu.“

Að sögn Herberts fundar stjórn hreyfingarinnar með þinghópnum að morgni sunnudags, vegna þessa máls, og reynir að leiða það til lykta.

Borgarahreyfingin logo
Borgarahreyfingin logo mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert