Nefnd sem dómsmálaráðherra, Ragna Árnadóttir, skipaði í apríl til að skoða meðferð hælisumsókna leggur til að útlendingum sem eru í hættu að verða fyrir alvarlegum skaða við endursendingu til heimalands síns verði veitt sama vernd og flóttamenn njóta, eða svokölluð viðbótarvernd. Þó verður að vera um að ræða ástæður sem falla utan við hina hefðbundnu skilgreiningu á hugtakinu flóttamaður samkvæmt íslenskum lögum og ákvæðum Flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.
Afgreiðsla stundum dregist óhóflega
Nefndin telur að upplýsingar sem hún hefur aflað um þann tíma sem mál
hælisleitenda hafa tekið í meðförum stjórnvalda, bæði
Útlendingastofnunar og dómsmálaráðuneytisins, bendi til þess að
afgreiðsla mála hafi í ákveðnum tilvikum dregist óhóflega. Mikilvægt er
að úr þessu sé bætt og málshraði aukinn, og má reyndar sjá verulegar
úrbætur í þessum efnum í stjórnsýslu Útlendingastofnunar undanfarna
mánuði, að mati nefndarinnar
Skoða ber hvert tilvik fyrir sig
Nefndin leggur áherslu á að þrátt fyrir ákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar um endursendingar hælisleitenda til aðildarríkis sem ber ábyrgð á hælisumsókn sé nauðsynlegt að skoða hvert tilvik fyrir sig. Verði talið varhugavert að endursenda hælisleitanda til annarra aðildarríkja skuli beita ákvæði 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar og taka hælisumsókn til efnislegrar meðferðar.
Þetta á sérstaklega við þegar í hlut eiga einstaklingar sem eru í viðkvæmri stöðu, t.d. börn án fylgdar eða fjölskyldur með börn undir 18 ára aldri eða heilsufarsástæður hælisleitanda mæla gegn endursendingu
Í nefndina voru Björg Thorarensen prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, sem jafnframt var formaður hennar, Atli Viðar Thorstensen, verkefnisstjóri hjá Rauða Krossi Íslands, Kristín Benediktsdóttir, lögmaður og stundakennari við lagadeild Háskóla Íslands, Rósa Dögg Flosadóttir lögfræðingur í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, nú settur forstjóri Útlendingastofnunar og Trausti Fannar Valsson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands.