Bókabúð Máls og menningar víkur um mánaðamótin úr húsnæðinu á Laugavegi 18, fyrir Máli og menningu. Bókabúð Máls og menningar er í eigu Pennans á Íslandi, sem nú er kominn undir hatt Nýja Kaupþings.
Elsa María Ólafsdóttir verslunarstjóri segir að fyrirtækið hefði kosið að vera áfram á Laugaveginum. „Kaupangur vildi hækka húsaleiguna það mikið, að við áttum engan kost annan en að flytja. Við reyndum lengi að komast að samningum við húseigandann, Kaupang, en urðum loks að taka af skarið og festa okkur annað húsnæði.“ Bókabúð Máls og menningar flytur í hús SPRON á Skólavörðustíg, í eigu Landic Properties.
Það er Bókmenntafélagið Mál og menning sem hyggst hefja rekstur bókaverslunar á sínum gamla stað.
Árni Einarsson, stjórnarformaður Bókmenntafélagsins, segir aðspurður ekkert vera athugavert við leigu félagsins á húsnæðinu við Laugaveg 18. „Það var boðið til leigu, við sendum inn tilboð, og það var hærra. Þetta voru hrein og klár viðskipti.“