Níunda svínaflensutilfellið á Íslandi

Grímuklæddur öryggisvörður í Tævanskri svínaflensusóttkví
Grímuklæddur öryggisvörður í Tævanskri svínaflensusóttkví NICKY LOH

Níunda tilfelli svínaflensu, inflúensu A(H1N1), var tilkynnt landlækni í gær. Hinn greindi er þrítugur karlmaður sem ekki hefur verið erlendis nýlega og ekki tengist öðrum greindum tilfellum svo vitað sé. Er hann á batavegi. Þá var í fyrradag staðfest að átta ára stúlka sem var að koma frá Spáni væri með svínaflensu og er hún einnig á batavegi að sögn Haraldar Briem sóttvarnalæknis.

Ungi maðurinn er sá fyrsti hér á landi sem greinist með sjúkdóminn og hefur hvorki verið að ferðast í útlöndum né verið í tengslum við einhvern sem vitað er til að hafi verið með flensu.

Haraldur segir að þetta sé fyrsta tilfellið hér þar sem engin tenging náist við upptökin og geti því bent til þess að flensan sé að breiðast út. Hann telur þó ekki ástæðu til að grípa til róttækra aðgerða. Veikist fólk verði það að fara vel með sig og halda sig heima við.

Segir Haraldur að búast megi við fleiri tilfellum á næstunni. Hann brýnir fyrir fólki að það sé mikilvægt að leita strax til læknis ef vart verði við inflúensulík einkenni. Tekin séu sýni til að staðfesta hvort um svínaflensu sé að ræða og taki tvo til þrjá daga að fá niðurstöður úr þeim.

Á síðu landlæknis er vakin athygli á upplýsingum um einkenni, smitleiðir, meðferð og fleira sem finna má á slóðinni www.influensa.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert