Mikil snjókoma var í Hrafntinnuskeri

Þorbergur Ingi Jónsson setti nýtt met í Laugavegshlaupinu í dag.
Þorbergur Ingi Jónsson setti nýtt met í Laugavegshlaupinu í dag. Anna Lilja Sigurðardóttir

Þorbergur Ingi Jónsson kom fyrstur í mark í Húsadal í Laugavegarhlaupinu um kl. 13.20. Hann hljóp á fjórum klukkustundum og tuttugu mínútum sem er nýtt met. Eldra met karla var 4.39. Þorbergur var í fyrsta ráshópnum, að sögn Önnu Lilju Sigurðardóttur upplýsingafulltrúa.

Þorbergur kom í mark á tímanum 4 klukkustundir og 20 mínútur sem er nýtt Laugavegsmet. Gamla metið átti Bandaríkjamaðurinn Charles Hubbard 4 klukkustundir og 39 mínútur, að því er fram kemur á vefnum marathon.is.

Hlaupið var ræst í Landmannalaugum í morgun kl. 9.00. Als lögðu 321 hlaupari af stað, þar af 59 erlendir þátttakendur. Veðrið var mjög gott í Landmannalaugum, sól öðru hvoru og hægur vindur. Á leiðinni hafa hlauparar hinsvegar ekki verið eins heppnir með veður og meðal annars lent í snjókomu. Í Þórsmörk er rigning og hæglætis veður.

Fyrstu hlauparar í mark

1. Þorbergur Ingi Jónsson, ÍSL, 4:20:32 (1982)
2. Guðmundur Sigurðsson, ÍSL, 4:54:15 (1960)
3. Tuomas Veli Tapio Maisala, FIN, 5:03:43 (1976) 
4. Gauti Höskuldsson, ÍSL, 5:04:40 (1961)

Anna hafði eftir Þorbergi Inga að talsvert mikið hafi snjóað á hlauparana í Hrafntinnuskeri. Snjókoman mun líklega tefja mest fyrir þeim sem hægast fara yfir.

Þorbergur  Ingi mun vera millivegalengdahlaupari og og hafa aðallega hlaupið 800 og 1.500 metra hlaup. Anna taldi það mikið afrek hjá Þorbergi Inga  að bæta fyrra met um 19 mínútur, ekki síst í ljósi erfiðra aðstæðna á leiðinni. Mikill snjór sé á leiðinni og víða bleyta þar sem snjóbráð hafi verið að undanförnu.

Til keppni voru skráðir 342 hlauparar frá 15 löndum, 81 kona og 260 karlar, sem er þátttökumet.  Alls luku 215 hlauparar Laugavegshlaupinu á síðasta ár sem var líka met. Það er því mikill áhugi á hlaupinu um þessar mundir.

Hlaupið hófst í Landmannlaugum og lýkur í Húsadal í Þórsmörk. Eins og margir vita er Laugavegurinn er ein fjölfarnasta og vinsælasta gönguleiðin um íslensk öræfi. Venjan er að ganga leiðina á fjórum dögum en met hlauptími á þessari 55 km leið í Laugavegshlaupi er 4 klukkustundir og 39 mínútur í karlaflokki og 5 klukkustundir og 31 mínúta í kvennaflokki.

Tímamörk eru í hlaupinu og þurfa hlauparar að vera komnir í Álftavatn (22 km) á innan við 4 klst og í Emstrur (34 km) á innan við 6 klst. Það er því aðeins fyrir vel æfðra hlaupara að taka þátt í þessari miklu þolraun.

Vefur Laugavegshlaupsins

Bestu tímar í Laugavegshlaupinu frá upphafi

Lagt var af stað úr Landmannalaugum kl. 9 í morgun.
Lagt var af stað úr Landmannalaugum kl. 9 í morgun. mbl.is/Bjarki Þórsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert