Slysahætta úr öllum áttum

Fyrr í vikunni var keyrt inn í hlið á sjúkrabíl …
Fyrr í vikunni var keyrt inn í hlið á sjúkrabíl sem var í forgangsakstri á gatnamótunum mbl.is/Júlíus

Gatnamót Hringbrautar og Njarðargötu hafa frá síðustu breytingu verið meðal hættulegustu gatnamóta höfuðborgarsvæðsins. Það eru einkum aftanákeyrslur og árekstrar við vinstribeygju sem valda tjónum og slysum. Til stendur að auka öryggi vegfarenda með því að setja sérstök ljós fyrir vinstribeygju af Njarðargötu.

Það kemur fram í skýrslu Einars Guðmundssonar, forstöðumanns Forvarnahússins, um umferðarslys á síðasta ári, að gatnamót Hringbrautar og Njarðargötu eru dæmi um breytingu sem ekki hefur skilað bættu umferðaröryggi. Um 50 þúsund bílar aka þarna um á sólarhring.

Umferðarhraðinn er nokkuð mikill, sérstaklega á umferð til vesturs eftir Hringbraut. Um leið og komið er undan brúnni yfir Snorrabraut og Bústaðaveg víkkar Hringbrautin og ökumenn stíga þéttar á bensínið.

Umferðarhraðinn hefur aukist við þá breytingu. Þegar svo komið er að gatnamótunum við Njarðargötu, vestan við bensínstöð N1, verða aftanákeyrslur þegar gult og rautt ljós birtist. Það er mat Forvarnahússins að hraðinn orsaki stóran hluta tjóna og slysa á þessum gatnamótum.

Áformaðar eru lagfæringar á götuvitunum á Hringbraut og Njarðargötu, samkvæmt áætlun Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar um úrbætur á þjóðvegum í Reykjavík.

Í yfirliti samgöngusviðs borgarinnar kemur fram að 73 umferðaróhöpp urðu á þessum gatnamótum á tveggja og hálfs árs tímabili á árunum 2005 til 2007, þar af 13 þar sem slys urðu á fólki.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert