Sjóstangaveiðibáturinn Haftyrðill strandaði við Langanes í Arnarfirði í dag. Þrír útlendir veiðimenn voru um borð og óskuðu aðstoðar hjá Landhelgisgæslunni kl. 15.45. Björgunarsveitin á Bíldudal brást skjótt við og kippti bátnum af strandstað. Engan sakaði við óhappið, að sögn Landhelgisgæslunnar.
Björgunarsveitin Kópur er nú að koma með sjóstangaveiðibátinn til Bíldudals. Björn Magnússon í Björgunarsveitinni Kópi sagði að þeir hafi fengið útkall vegna strandsins og farið á strandstað á bátnum Mardöll BA-37 og harðbotna slöngubáti björgunarsveitarinnar.
Björn kvaðst ekki vita hvað olli því að báturinn varð vélarvana. Hann rak síðan á milli kletta og upp í fjöru. Um borð í stangaveiðibátnum voru tveir fullorðnir karla og unglingspiltur, á að giska 10-12 ára. Þeir eru allir útlendir.
Mennirnir voru ferjaðir úr strandaða bátnum út í Mardöll og síðan var báturinn dreginn á flot. Magnús sagði að báturinn sem strandaði sé eitthvað rispaður en hann sé ekki alvarlega lekur. Ekkert amar að mönnunum sem lentu í strandinu.