Daily Mail: Getur skaðað stöðu Íslands

Hópur fólks mótmælir Icesave-samkomulaginu á Austurvelli
Hópur fólks mótmælir Icesave-samkomulaginu á Austurvelli mbl.is/Kristinn

Ótti um að Ísland standi ekki við skuldbindingar sínar gagnvart breskum skattgreiðendum sem áttu fé inni á reikningum íslensku bankanna fer vaxandi, að því er breska dagblaðið Daily Mail segir á vef sínum. Þar segir að Alþingi muni í vikunni greiða atkvæði um Icesave-samninginn.

Daily Mail fjallar um innihald samkomulagsins sem íslensk stjórnvöld samþykktu í viðræðum sínum við Breta og Hollendinga. Kemur fram að gagnrýnendur samkomulagsins segi að sú ákvörðun bresku ríkisstjórnarinnar að frysta eignir íslensku bankanna í Bretlandi skýri að hluta hrun íslensku bankanna í október.

Haft er eftir talsmanna Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, að ríkisstjórnin telji að samkomulagið verði samþykkt og ef það verði ekki þá séu þeir komnir aftur á byrjunarreit. Talsmaðurinn staðfesti við blaðið að andstæðinga við samkomulagið væri að finna í öllum flokkum á Alþingi. 

Daily Mail segir að ef samkomulagið við Breta og Hollendinga verði ekki samþykkt þá geti það skaðað stöðu Íslands gagnvart alþjóða samfélaginu. Bæði lánið frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og innganga Íslands í Evrópusambandið séu í hættu verði ekki gengið frá Icesave-samkomulaginu.

Grein Daily Mail í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka