Fjárlaganefnd fundaði um Icesave-samninginn í morgun. Stjórnarandstaðan lagði fram í morgun skriflega ósk um að ákveðin gögn og upplýsingar yrðu færð fyrir nefndina og að nefndin fengi gesti í heimsókn. Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, hafði óskað eftir þessari beiðni frá stjórnarandstöðunni á fimmtudag.
Málið verður aftur til umfjöllunar hjá nefndinni á morgun. Ragnar Hall og hrl. og Eiríkur Tómasson, lagaprófessor, lýstu því yfir í Morgunblaðinu í dag að með Icesave-samningnum myndu Íslendingar lögfesta mun víðtækari ábyrgð en nokkurn tímann bar að greiða. Guðbjartur segir þetta vera megin-umfjöllunarefni nefndarinnar þessa dagana.
„Við höfðum verið með lögfræðinga hjá okkur í nefndinni sem voru á algjörlega öndverðum meiði. Núna stefnum við að því leiða þessi andstæðu sjónarmið saman fyrir nefndinni og reyna að komast að niðurstöðu,“ segir Guðbjartur Hannesson. Ragnar og Eiríkur hafa þegar komið fyrir nefndina og segir Guðbjartur að um leið og greinin birtist hafi þeir verið kallaðir á fund aftur.
Hann segir nefndin hafi jafnframt verið að rýna í gögn frá Seðlabankanum og fjármálaráðuneytinu um greiðsluþol og efnahagslega afkomu.
Guðbjartur segir ekki enn víst hvenær málið verði afgreitt úr nefnd. „Við viljum ná sem allra mestri sátt um þetta mál. Við höfum ennþá þann ásetning að klára það eins fljótt og hægt er án þess að það bitni á málsmeðferðinni. “