Búast má við að yfir 1.500 tonn af útiræktuðu íslensku grænmeti muni fylla hillur verslana um land allt á næstu vikum. Uppskerutími útiræktaðs íslensks grænmetis er nú í fullum gangi og stendur fram á haust. Spergilkál, gulrætur, gulrófur, sellerí og grænkál er meðal þess sem nú kemur upp úr görðum á Suðurlandi. Kuldi fram eftir vori hefur ekki komið að sök og er uppskeran að sögn mjög góð í ár.
Garðyrkjubændur á Suðurlandi vinna nú hörðum höndum ásamt starfsfólki sínu við að taka upp grænmeti svo hægt sé að koma því glænýju í verslanir. Grænmetið er tekið upp á daginn og er komið í verslanir á höfuðborgarsvæðinu daginn eftir. Útiræktað grænmeti verður tekið upp daglega næstu fjórar vikurnar og sent jafnóðum í verslanir.
„Eftirspurn eftir íslensku grænmeti er alltaf að aukast og grænmetisbændur hafa þurft að hafa sig alla við að anna henni. Sumarið hefur, líkt og undanfarin sumur, verið mjög gott og við erum að fá fallegt og vel þroskað grænmeti upp úr görðum í ár,“ segir Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjumanna.
Gert er ráð fyrir því að alls verði tekin upp yfir 1.500 tonn af íslensku útiræktuðu grænmeti í ár. Meðal þess sem kemur upp úr görðum eru 550 tonn af gulrófum , 400 tonn af gulrótum og 300 tonn af hvítkáli.
Vorið var kalt á Suðurlandi og höfðu bændur nokkrar áhyggjur að það hefði áhrif á uppskeruna. Sumarið hefur hins vegar verið mjög gott og er uppskeran í ár á svipuðum tíma í fyrra.