Norska olíuleitarfélagið Aker Exploration hefur dregið til baka umsókn sína um sérleyfi til rannsókna og vinnslu kolvetna samkvæmt 1. útboði á Drekasvæðinu. Í bréfi til Orkustofnunar segir að ástæða þessa sé breytt stefnumörkun hjá fyrirtækinu. Aker Exploration er með starfsemi víða, m.a. á norska land-grunninu.
Tvær umsóknir bárust í útboði sérleyfa á Drekasvæðinu. Útboðið hófst í janúar sl. og rann frestur til að sækja um sérleyfi út 15. maí síðastliðinn. Annars vegar barst umsókn frá norska olíuleitarfélaginu Aker Exploration og hins vegar frá norska olíuleitarfyrirtækinu Sagex Petroleum, sem lagði hana fram í samvinnu við Lindir Exploration sem er íslenskt félag.
Umsóknirnar ná til fjögurra reita á Drekasvæðinu. Tveir reitanna eru innan svæðis sem fellur undir samkomulag við Noreg um landgrunnið á svæðinu milli Íslands og Noregs.
Í bréfi sem Aker Exploration AS sendi Orkustofnun í dag, segir að vegna breyttrar stefnumörkunar hjá fyrirtækinu hafi Aker Exploration AS ákveðið að draga til baka umsókn sína um sérleyfi til rannsókna og vinnslu kolvetna samkvæmt 1. útboði á Drekasvæðinu.
Umsókn Sagex Petroleum og Lindir Exploration er enn í vinnslu.
Auk þess veitti Orkustofnun þann 5. júní sl. bandaríska fyrirtækinu ION GX Technology leyfi til leitar að kolvetni á norðanverðu Drekasvæðinu.