Kröfuhafar eignast Kaupþing

Steinar Þór Guðgeirsson, formaður skilanefndar Kaupþings.
Steinar Þór Guðgeirsson, formaður skilanefndar Kaupþings. mbl.is/Árni Sæberg

Ekkert bendir til annars en að stærstu kröfuhafar gamla Kaupþings, sem eru aðallega eigendur skuldabréfa, muni eignast allt að 87% hlut í Nýja Kaupþingi. Kröfuhafarnir sátu hluta viðræðna við íslensk stjórnvöld og samkomulagið um endurfjármögnun bankanna er gert með samþykki þeirra og velvilja, að sögn Steinars Þórs Guðgeirssonar, formanns skilanefndar Kaupþings. 

Sökum mikillar óvissu um verðmat á eignum sem fluttar voru yfir til Nýja Kaupþings telur skilanefnd Kaupþings að hagsmunum kröfuhafa bankans sé best borgið með eignarhlut í Nýja Kaupþingi.

Neyðarlögin „leiðrétt“

Samkomulagið felur í sér að gamla Kaupþingi gefst kostur á að eignast 87% hlutafjár í Nýja Kaupþingi á móti ríkissjóði. Kaupþing leggur fram 65% af heildar eiginfjárframlagi í formi almenns hlutafjár og íslenska ríkið 35% í formi víkjandi láns og almenns hlutafjár. Með þessu eignast gamla Kaupþing aftur þær eignir og skuldir sem færðar voru yfir til Nýja Kaupþings í október, eftir setningu neyðarlaganna.

Ríkissjóður mun annast fjármögnun Kaupþings til að byrja með. Síðan gefst kröfuhöfum að eignast bankann fyrir 31. október næstkomandi. Samkomulagið sem kynnt var í morgun er háð samþykki Fjármálaeftirlitsins og áreiðanleikakönnun á Nýja Kaupþingi sem ljúka þarf áður. 

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, var spurður að því á fundi í Þjóðmenningarhúsinu í morgun hvort með þessari aðgerð væri ekki verið að leiðrétta neyðarlögin. Steingrímur tók þann pól í hæðina að verja setningu neyðarlaganna. Stjórnvöld hefðu í reynd verið að slá skjaldborg um innstæður og innlenda bankastarfsemi. Það hafi verið nauðsynleg aðgerð.

Upplýstir á hverjum degi

„Hluti af kröfuhöfunum sátu samningaviðæðurnar. Stærstu kröfuhafarnir skipuðu sitt undirráð [kröfuhafaráð],“ segir Steinar Þór Guðgeirsson. 

Steinar segir að kröfuhafarnir hafi verið upplýstir á hverjum einasta degi með símafundum um stöðu mála. Því bendi ekkert til annars en að þorri þeirra sé mjög sáttur við þessa niðurstöðu. 

Bandaríski fjárfestingarbankinn Morgan Stanley aðstoðaði skilanefnd Kaupþings í viðræðunum. 

Nýtt vörumerki Nýja Kaupþings

Innan skamms verður nýtt vörumerki og nafn Nýja Kaupþings kynnt, en bankinn hefur farið í naflaskoðun á vörumerki sínu og ímynd undanfarnar vikur. Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri, mun gegna því starfi a.m.k út þetta ár, en í haust stendur til að auglýsa stöðuna. 

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert