„Menn sömdu af sér“

„Það má ekki samþykkja samninginn óbreyttan,“ segir Ragnar Hall hæstaréttarlögmaður um Icesave-samninginn. „Það verður að gera fyrirvara um að þær reglur sem gengið er út frá um úthlutun úr búi Landsbankans upp í kröfur vegna Icesave verði endurskoðaðar.“

Hann segir að samningnum verði ekki breytt einhliða af hálfu Íslendinga. „En spurningin er hvort íslenska ríkið ætlar að lögfesta ábyrgð ríkissjóðs á greiðslu, sem er víðtækari en okkur nokkurn tíma bar greiða. Þess vegna finnst mér að við verðum að stöðva þetta. Menn sömdu af sér,“ segir Ragnar.

Hann segir sinn skilning hafa beina stoð í tilskipun ESB um innstæðutryggingasjóði. Hann sé einnig í samræmi við íslensk lög.

„Ég held að þess vegna hafi náðst samkomulag um aðra uppgjörsaðferð, því með því er vikið frá því sem ætti að vera samkvæmt íslenskum lögum,“ segir Ragnar.

Menn rugla tvennu saman

Eiríkur Tómasson, lagaprófessor við Háskóla Íslands, tekur undir með Ragnari og báðir vísa þeir á bug þeirri gagnrýni, að þeirra túlkun brjóti í bága við neyðarlögin. „Menn rugla tvennu saman,“ segir Eiríkur.

„Neyðarlögin kveða aðeins á um að allar innstæðukröfurnar, án tillits til fjárhæðar, njóti forgangs. Það þýðir að þær eru jafnsettar þegar kemur að úthlutun úr búi Landsbankans, sama hvort þær eru háar eða lágar.

Ef ein innstæða er 20 þúsund evrur, og við gefum okkur að 75% komi upp í kröfurnar, þá koma inn 15 þúsund af þeirri innstæðu. Þar sem íslenski innstæðutryggingasjóðurinn tekur á sig lágmarkstrygginguna, 20.887 evrur, þá fellur mismunurinn á hann. Fyrsta greiðslan ætti því auðvitað að ganga upp í okkar lágmarkstryggingu.

Ef við gefum okkur að innstæðan sé 100 þúsund evrur, þá koma inn 75 þúsund evrur, sem mætir að fullu okkar skuldbindingum. Það sem umfram er rennur til breska og hollenska tryggingasjóðsins og síðan koma kröfuhafarnir síðastir.“

Eiríkur segir neyðarlögin engu breyta þar um. „Þau segja aðeins að 100 þúsund evra reikningurinn eigi rétt á að fá hlutfallslega greitt úr þrotabúinu, ekkert síður en 20 þúsund evra reikningurinn. Um það er enginn ágreiningur. En þau segja ekkert um það til hverra þessir fjármunir eiga svo að renna. Ef Íslendingar fá ekki fyrstu greiðslu úr búi Landsbankans upp í lágmarkstrygginguna, þá erum við í reynd að taka á okkur meiri ábyrgð en kveðið er á um í Evróputilskipuninni.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert